Perlan seld

Borgarráð hefur samþykkt kauptilboð Perlunnar þróunarfélags ehf í Perluna í Öskjuhlíð ásamt tveimur tönkum. Um er að ræða sömu aðila og hafa haft Perluna á leigu síðastliðin níu ár. Undirritunin fór fram í nýjum sýningarsal í Perlunni sem opnar í júní.
Varmahlíð 1, sem er Perlan samkomuhús ásamt tveimur tönkum sem hýsa annars vegar safn og hins vegar stjörnuver, var auglýst til sölu í júlí 2024. Söluferlinu var skipt í tvö þrep og kveðið á um að lágmarksverð væri 3,5 milljarðar króna. Tveir aðilar skiluðu inn umsókn á fyrsta þrepi en Perlan þróunarfélag ehf. skilaði eitt inn tilboði á öðru þrepi. Tilboðsverð er 3.507.161.172 krónur. Fyrirvarar sem kaupandi setti upphaflega í kauptilboð sitt eru ekki lengur til staðar og í samningaviðræðum hafa aðilar komist að samkomulagi um greiðslutilhögun kaupverðs.

Kvaðir um forkaupsrétt, skólaheimsóknir og fleira
Perlan er eitt helsta kennileiti Reykjavíkurborgar og verður því eftirfarandi kvöðum þinglýst á eignirnar samhliða kaupsamningi:
- Reykjavíkurborg hafi forkaupsrétt að eignunum.
- Perlan verði nýtt undir afþreyingartengda starfsemi; svo sem söfn, sýningar, veitingaþjónustu eða annað sem gerir staðinn að aðlaðandi áfangastað fyrir almenning í Reykjavíkurborg.
- Grunnskólabörn í Reykjavík geti komið endurgjaldslaust í skipulagðar grunnskólaheimsóknir á þau náttúrusöfn sem verða rekin í eignunum, tvisvar sinnum á skólagöngunni í fyrsta til tíunda bekk.
Þá hafa aðilar lýst yfir vilja til að vinna sameiginlega að því að þróun svæðisins við Varmahlíð 1 stuðli að fjölbreyttri þjónustu við notendur og að Öskjuhlíð verði eftirsóknarverður áfangastaður fyrir heimafólk og gesti.

Algjör viðsnúningur í rekstri hússins
Hitaveita Reykjavíkur byggði Perluna og var hún opnuð árið 1991. Reykjavíkurborg keypti Perluna árið 2013 og síðar tvo vatnstanka af Orkuveitu Reykjavíkur. Þá stóð rekstur hússins ekki undir sér en algjör viðsnúningur hefur orðið og standa tekjur vel undir kostnaði. Stærð hússins og tanka er um 5.800 fermetrar.