Opnað fyrir umsóknir í Loftslagssjóð ungs fólks í Reykjavík

Loftslagsmál

Til þess að finna lausnir við loftlagsvandanum þarf allar hendur á dekk og fá nýjar, skapandi hugmyndir úr ólíkum áttum. Þátttaka ungs fólks skiptir máli. Mynd/Arctic Images - Ragnar Th.
Yfirlitsmynd yfir gras, tré, götur, tjörn og fólk.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Loftslagssjóð ungs fólks í Reykjavík. Markmið sjóðsins er að virkja ungt fólk á aldrinum 15-24 ára í leit að lausnum á loftslagsvandanum og styrkja ný verkefni sem vinna gegn loftslagsvánni. Sjóðurinn er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Bloomberg Philanthropies og var fyrst úthlutað úr honum í fyrra.

Þá hlutu fjölbreytt verkefni styrk á borð við almenningssamgöngukeppni, hakkaþon, fræðsluviðburði, gerð loftslagsblaðs, endurheimt vistkerfa og hringrásarverkefni. Reykjavík hvetur ungt fólk á aldrinum 15-24 ára og samtök sem starfa með þeim að leggja höfuðið í bleyti og sækja um í sjóðinn. 

Umsóknarfrestur til 10. mars

Til þess að finna lausnir við loftlagsvandanum þarf allar hendur á dekk og fá nýjar, skapandi hugmyndir úr ólíkum áttum. Þátttaka ungs fólks skiptir máli og þekkt er samkvæmt alþjóðlegum rannsóknum að 84% ungmenna eru áhyggjufull yfir loftslagsvánni.

Verkefnin verða að styðja við og vísa í loftslagsáætlun Reykjavíkur og eru styrkupphæðir á bilinu 150.000-690.000 krónur. Senda má inn fleiri en eina umsókn í sjóðinn en að hámarki verða þrír styrkir veittir hverjum umsækjanda. Heildarupphæð styrkja er um 12 milljónir króna. Mörg verkefni verða því styrkt. Umsóknarfrestur er til og með 10. mars. Úthlutun verður tilkynnt á degi jarðar, 22. apríl.