Opið fyrir samráð um leikskólaleiðina í Reykjavík
Samráðsgátt fyrir tillögur að umbótum á náms- og starfsumhverfi leikskóla í Reykjavík var opnuð í dag, miðvikudaginn 15. október. Tekið verður á móti ábendingum og tillögum um breytingar næstu tvær vikur, eða til 29. október.
Tillögurnar sem nú eru í samráðsferli byggja á áfangaskilum stýrihóps um leikskólaleiðina í Reykjavík. Stýrihópurinn er enn að störfum en hefur kynnt tillögur sem snúa að dvalartíma barna, breyttu skipulagi og nýrri gjaldskrá. Samráðsgáttin verður opin í tvær vikur eða til 29. október.
Í samráðsgáttina getur fólk sent inn ábendingar, lagt til breytingar og deilt sinni skoðun á tillögunum og þannig tekið þátt í að móta náms- og starfsumhverfi í leikskólum borgarinnar.
Helstu breytingar samkvæmt tillögunum felast í fyrirsjáanleika skráningardaga og nýrri gjaldskrá sem felur í sér hvata til að hafa dvalartíma barna sem næst 38 stundum á viku í meira samræmi við vinnutíma starfsfólks leikskóla. Þá er einnig gert ráð fyrir 25 prósenta afslætti af námsgjaldi ef börn eru ekki skráð eftir klukkan 14:00 á föstudögum.
Tillögur að gjaldskrá - reiknivél
Ein leið til þess að samræma betur vinnutíma starfsfólks og dvalartíma barna er að foreldrar skrái með fyrirvara hvort ætlunin er að nýta leikskólaþjónustu á skráningardögum, í vetrarfríum grunnskóla, virka daga milli jóla og nýárs og í dymbilviku. Lagt er til að foreldrar skrái börn sín fyrir allt skólaárið í september til að auka möguleika leikskólastjórnenda til að skipuleggja starfsmannamál fyrir árið.
Lagt er til að verð fyrir hvern skráningardag verði 4000 krónur og ef enginn skráningardagur á skólaárinu er nýttur fellur námsgjald að fullu niður í maí.
Breytingunum, sem lagðar eru til, er ætlað að bæta starfsumhverfi, efla fagstarf og auka fyrirsjáanleika í starfsemi leikskóla. Vonir standa til að bættar starfsaðstæður ásamt nýjum kjarasamningum muni bæta mönnun, auka hlutfall fagmenntaðra í leikskólunum og komi að mestu í veg fyrir ófyrirséðar lokanir vegna fáliðunar sem hafa reynst barnafjölskyldum þungar.