Ölduselsskóli fagnaði 50 ára afmæli með glæsilegri hverfishátíð

Svipmynda af lúðrasveitinni sem spilaði.

Síðastliðinn fimmtudag, þann 15. maí, fagnaði Ölduselsskóli 50 ára starfsafmæli með glæsilegri hverfishátíð á skólalóðinni. Hátíðin fór fram seinnipartinn og fjölmenntu bæði núverandi og fyrrverandi nemendur, foreldrar, starfsfólk og aðrir velunnarar skólans og tóku þátt í gleðinni.

Hoppukastali vakti lukku.

Axarkast vakti athygli

Dagskráin var fjölbreytt og skemmtileg og höfðaði til allra aldurshópa. Á svæðinu ríkti líf og fjör þar sem gestir gátu meðal annars prófað veltibíl, farið á kajak í sundlauginni, leikið sér í hoppuköstulum og klifurturni, fengið hjólin sín skoðuð og notið fjölbreyttra leiktækja frá ÍTR. Þá var boðið upp á frisbígolf, andlitsmálun, kökubasar, ljúffengt popp og candyfloss. Einnig vakti axarkast mikla athygli og reyndu margir sig í þeirri list. Á svæðinu voru matarvagnar frá Götubitanum – Reykjavik Street Food með girnilegan mat og drykki.

Kajaksigling í sundlauginni.

Lúðrasveit og leiðsögn um skólann

Hátíðin hófst með formlegri vorhátíðarsetningu og Lúðrasveit Árbæjar og Breiðholts lék fyrir gesti. Að því loknu hófst leiðsögn um skólann þar sem gestir fengu tækifæri til að rifja upp gömul kynni og skoða hvernig skólinn hefur þróast í gegnum árin.

Það var sannkölluð hátíðarstemning og Ölduselsskóli og Reykjavíkurborg þakka öllum sem komu og tóku þátt í að gera daginn eftirminnilegan.

Steinn Jóhannsson, Erla Erlendsdóttir, Arndís Steinþórsdóttir og Helga Þórðardóttir.
Frá vinstri: Steinn Jóhannsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, Erla Erlendsdóttir skólastjóri Ölduselsskóla, Arndís Steinþórsdóttir skrifstofustjóri grunnskólahluta skóla- og frístundasviðs og Helga Þórðardóttir formaður skóla- og frístundaráðs.