Nýtt rútustæði við Gömlu Hringbraut

Nýja stæðið verður með aðkomu frá Vatnsmýrarvegi, ofan við BSÍ
Nýja stæðið verður með aðkomu frá Vatnsmýrarvegi, ofan við BSÍ.

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar kynnti í vikunni tillögu um nýtt rútustæði við Gömlu Hringbraut sem kemur í stað núverandi safnstæðis við Hallgrímskirkju.

Tillagan byggir á greiningarvinnu og samráði við hagaðila, þar á meðal ferðaþjónustuna, íbúasamtök og stofnanir í nágrenninu.

Markmiðið með nýja stæðinu er að draga úr umferð rútubíla í íbúðahverfum, bæta öryggi gangandi vegfarenda og tryggja aðkomu ferðaþjónustu að miðborginni á sjálfbærari hátt.

Athuganir sýna að nýja staðsetningin við Gömlu Hringbraut hefur svipaða kosti og núverandi stæði þegar horft er til göngufjarlægðar frá gististöðum, að meðaltali um fimm mínútna ganga. Umferðartalningar sýndu að núverandi stæði við Hallgrímskirkju tekur á móti allt að sjö rútum á 15 mínútum á annasömum morgnum, sem hefur skapað álag í hverfinu, ekki síst í nágrenni leik- og grunnskóla.

Nýja stæðið verður með aðkomu frá Vatnsmýrarvegi, ofan við BSÍ. Stæðið verður aðeins ætlað hópferðabílum. Gönguleiðir verða skýrt afmarkaðar og gert ráð fyrir biðsvæði með bekkjum og mögulegu skýli. 

Undirbúningur framkvæmdarinnar er í fullum gangi og er áætlað að þær hefjist seinna í sumar. Stæðið við Hallgrímskirkju verður notað þangað til nýja stæðið verður opnað.