Nýtt á Mínum síðum- umboð fyrir einstaklinga og fyrirtæki

Mínar síður Reykjavíkurborgar eru stöðugt í þróun með það að markmiði að bjóða upp á lausnir sem einfalda líf fólks og fyrirtækja. Nú geta einstaklingar og prókúruhafar fyrirtækja veitt öðrum umboð til að skoða og stjórna málum á Mínum síðum á öruggan og þægilegan hátt með því að nota umboðslausn island.is.
Umboðslausn sem stuðlar að skilvirkari þjónustu
Umboðið, sem er lausn í gegnum island.is, veitir aðgang að öllum upplýsingum og þjónustu sem Mínar síður hafa upp á að bjóða. Einstaklingar geta nú deilt aðgangi með fjölskyldu eða traustum aðilum, og prókúruhafar fyrirtækja geta veitt starfsfólki aðgang til að sjá um fyrirtækjamál. Þetta stuðlar að betra samstarfi og skilvirkari þjónustu í borginni, en Reykjavíkurborg er með umfangsmestu notkun á umboðslausninni á öllu landinu.
Stutt leiðbeiningamyndbönd sem útskýra hvernig umboðslausnin virkar.
Reykjavík fyrst sveitarfélaga til að gefa út rafræn skilríki
Til að skrá sig inn á Mínar síður þarf rafræn skilríki. Það er gaman að segja frá því að til að koma til móts við fjölbreyttar þarfir íbúa býður Reykjavíkurborg nú upp á afgreiðslu á rafrænum skilríkjum í þjónustuveri borgarinnar í Borgartúni 12-14. Reykjavíkurborg er fyrsta sveitarfélagið sem býður upp á þessa þjónustu með það að leiðarljósi að efla stafrænt aðgengi fyrir öll.
Hvað eru Mínar síður?
Mínar síður eru þjónustutorg Reykjavíkur og hýsa þær fjölbreytta þjónustu fyrir íbúa og fyrirtæki. Markmiðið er að bjóða upp á betra aðgengi að opinberri þjónustu, draga úr sóun, fækka bílferðum og spara tíma. Á síðasta ári var lokið við að færa allar rafrænar umsóknir borgarinnar yfir á Mínar síður. Það var stór áfangi sem einfaldaði þjónustuna og jók aðgengi verulega. Í kjölfarið var hægt að loka eldri lausnum sem voru komnar til ára sinna.
Stöðug þróun og nýjungar
Mínar síður eru í sífelldri þróun og reglulega er bætt við nýjungum sem gera þjónustuna betri og aðgengilegri. Okkur þykir virkilega vænt um að geta hjálpað fólki og fyrirtækjum í borginni að spara tíma og einfalda lífið með rafrænum lausnum.
Meðal nýjunga sem hafa bæst við undanfarna mánuði eru:
- Birting á stöðu mála fyrir báða forsjáraðila.
- Nýtt ferli fyrir umsóknir um íbúakort.
- Upphleðsla skjala eftir innsendingu.
- Öruggar boðgreiðslur.