Nýtt eftirlits- og skjalavistunarkerfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur

Séð yfir Sæbraut og Borgartún.

Á dögunum var nýtt skjala- og eftirlitskerfi hjá Heilbrigðiseftirlitinu tekið í notkun sem hlotið hefur nafnið HERA.

Nýja kerfið á að styðja við bætt vinnubrögð, auka skilvirkni og bæta þjónustu við almenning og eftirlitsþega, auk þess að tryggja upplýsingaöryggi og einfalda rafræna skjalavinnslu. 

Samið var við Arango ehf. í kjölfar markaðskönnunar. Samanburður var gerður á lausnum frá tólf fyrirtækjum en að endingu var Arango ehf. valið vegna notendavæns viðmóts og góðra möguleika á samþættingu við önnur kerfi Reykjavíkurborgar. Lausnir þeirra, Arango Erindi og Arango Eftirlit, byggja á Microsoft Dynamics 365 og Power Platform og bjóða upp á leiðir til að einfalda skjalavinnslu. 

Heilbrigðiseftirlitið mun halda áfram að þróa kerfið og aðlaga að sinni starfsemi til að þjóna þörfum þjónustuþega.