Ný nálgun á húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri kynnti í dag nýja nálgun á húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík sem mun stuðla að hagkvæmari uppbyggingu íbúðahúsnæðis í borginni.
Reykjavíkurborg mun hefja undirbúning að samstarfi um uppbyggingu allt að 4000 íbúða hverfis í Úlfarsárdal í samstarfi við innviðafélag. Auglýst verður eftir áhugasömum aðilum til viðræðna um samstarfið á næstu vikum.
Með þessu er leitast við að hraða uppbyggingu íbúðahúsnæðis og tilheyrandi innviða og stuðla þannig að heilbrigðari húsnæðismarkaði, með hagkvæmari valkostum fyrir ungt fólk og efnaminni kaupendur. Tillagan verður tekin fyrir á fundi borgarráðs á morgun.
„Þetta er afrakstur vinnu sem verið hefur í gangi frá fyrsta degi í núverandi meirihluta borgarstjórnar,” segir Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri. „Reykjavík er leiðandi í uppbyggingu á landinu vegna þess að þak yfir höfuðið og öruggt skjól er mannréttindamál. Aukið framboð af óhagnaðardrifinni uppbyggingu íbúðarhúsnæðis er lífspursmál fyrir ótal fjölskyldur. Hér erum við að ýta af stað atburðarrás sem á eftir að skipta sköpum í lífi mörg þúsund einstaklinga."