Ný ljósastýring og akreinaskipan á Höfðabakka
Framkvæmdum við gatnamót Höfðabakka og Bæjarháls miðar vel og er áætlað að þær klárist í vikunni.
Verið er að setja upp umferðarljósabúnað og taka skynjara í notkun, sem þýðir að ljósastýringin verður sveigjanlegri og betra jafnvægi næst á milli akstursstefna.
Markmið breytinganna er fyrst og fremst að auka öryggi gangandi og hjólandi, bæta tengingar við stígakerfið án þess þó að heildartafir umferðar aukist.
Breytingar á norðurleggi Höfðabakka við Bæjarháls
Áður voru fjórar akreinar í suðurátt á Höfðabakka: tvær vinstribeygjureinar, ein áfram og ein hægribeygjurein á framhjáhlaupi.
Umferðartalningar sýndu litla eftirspurn eftir hægribeygju auk þess að framhjáhlaupið skapaði hættu fyrir gangandi vegfarendur, þ.e. ökumenn koma af hraðri götu (Höfðabakka) yfir á hægari götu (Streng).
Umferðartalningar sýna að tvöfalt meiri eftirspurn er eftir því að fara beint áfram yfir gatnamótin en að beygja til vinstri. Því var miðakreininni breytt. Nú eru þrjár akreinar: ein vinstribeygja, ein áfram og ein blönduð áfram/hægri.
Með þessu minnkar hætta á slysum á gönguþverun og akstursflæði í beinu áframstreymi verður skilvirkara.
Breytingar á Bæjarhálsi
Á Bæjarhálsi voru þrjár akreinar í vesturátt: vinstribeygja, blönduð áfram/vinstri og hægribeygjuframhjáhlaup. Framhjáhlaupið var fjarlægt þar sem það reyndist bæði hættulegt og torveldaði tengingar hjóla- og göngustíga.
Talningar sýna að daglega fara þar yfir um 100 hjólandi einstaklingar á Bæjarhálsi og 150 hjólandi á Höfðabakka. Í hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir að stofnstígur liggi meðfram Höfðabakka og áfram austur um Dragháls og Krókháls að Grafarholti og Úlfarsárdal. Þar verða aðskildir stígar fyrir gangandi og hjólandi, og nýja fyrirkomulagið gerir ráð fyrir þeirri þróun.
Slysagreiningar sýndu einnig að aftanákeyrslur voru algengar á hægribeygju framhjáhlaupinu. Því þótti öruggast að láta hægribeygju þar stýrast af umferðarljósum. Fjöldi akreina verður þó óbreyttur í báðar áttir.
Næstu skref
Unnið er hörðum höndum að því að koma nýrri ljósastýringu í gagnið og eftir það verður fylgst náið með þróuninni. Ef breytingar hafa ófyrirséð áhrif á nærliggjandi gatnakerfi verður gripið til aðgerða en vonir standa til að flæðið verði betra fyrir alla vegfarendur.
Framundan er endurnýjun ljósabúnaðar á fleiri gatnamótum við Höfðabakka: við Vesturlandsveg, Dvergshöfða, Stórhöfða og Bíldshöfða.
Nánari upplýsingar um framkvæmdirnar má finna á framkvæmdasíðunni um Höfðabakka.