Menningarnótt er fjölskylduhátíð
Blaðamannafundur var haldinn á Ingólfstorgi í blíðskaparveðri í morgun til að kynna dagskrá Menningarnætur og fara yfir öryggis- og aðgengismál.
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri, fór yfir helstu atriði hátíðarinnar. Fulltrúar frá lögreglunni, slökkviliðinu, strætó, forvarnarsamtökum og frístundamiðstöðvum voru á staðnum, til að fara yfir öryggis- og aðgengismál.
Dagskrá Menningarnætur verður stytt í ár, hún verður sett klukkan 12.30 við Þjóðleikhúsið og lýkur klukkan 22.00. Þessi breyting er gerð til að undirstrika að þetta er fjölskylduhátíð þar sem lögð er áhersla á að fjölskyldan komi saman í miðborgina og fjölskyldan fari saman heim.
Minningarstund á Arnarhóli
Í lok tónleika RÚV á Arnarhóli verður einnar mínútu þögn til að minnast Bryndísar Klöru Birgisdóttur. Að lokinni minningarstund verður flugeldasýningin sem tileinkuð er Bryndísi Klöru og öllum ungmennum sem orðið hafa fyrir ofbeldi.