Markús orðinn safnstjóri Listasafns Reykjavíkur
Markús Þór Andrésson hefur tekið við starfi safnstjóra Listasafns Reykjavíkur af Ólöfu Kristínu Sigurðardóttur, sem hefur gegnt starfinu síðustu tíu ár.
Formleg safnstjóraskipti fóru fram í gær, 1. september, þegar Markús tók við lyklum safnsins með táknrænum hætti úr hendi Ólafar í Hafnarhúsi.
„Það er mikill heiður að fá tækifæri til að leiða Listasafn Reykjavíkur inn í nýja tíma. Safnið hefur á undanförnum árum eflst gríðarlega og ég hlakka til að vinna áfram að því að styrkja stöðu þess sem lifandi vettvangs fyrir samtímalist,“ segir Markús.
Ólöf Kristín segist stolt af þeim árangri sem náðst hefur á hennar tíu árum í starfi: „Það hefur verið mér heiður að sinna þessu starfi og gefandi að kynnast öllu því frábæra listafólki sem unnið hefur með okkur að því að styrkja Reykjavík í sessi sem kraftmikla menningarborg og safnhúsin sem sjálfsagðan viðkomustað borgarbúa og gesta borgarinnar. “
Markús hefur starfað sem deildarstjóri sýninga og miðlunar hjá safninu frá árinu 2017, sem sjálfstætt starfandi sýningarstjóri fyrir fjölda safna og sýningarstaða og hefur unnið að sýningum jafnt hérlendis sem erlendis. Ráðningin er til fimm ára með möguleika á fimm ára endurráðningu.