Losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík 2024
Samfélagsleg losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík árið 2024 var 614 þúsund tonn CO₂ ígildi, sem er 1,5% aukning frá árinu 2023.
Aukninguna má einkum rekja til meiri losunar vegna meðhöndlunar úrgangs, en megnið af þeirri losun stafar af úrgangi sem var urðaður til ársins 2023 og heldur áfram að losa, auk blandaðs úrgangs sem sendur var til brennslu erlendis á árinu 2024.
Losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík er tekin saman árlega og byggir á uppfærðum aðferðum og betri gögnum. Samantektin er unnin í samræmi við skuldbindingar Reykjavíkurborgar í alþjóðlegu samstarfi Global Covenant of Mayors for Climate and Energy og þátttöku borgarinnar í Evrópuverkefninu um 112 kolefnishlutlausar og snjallar borgir árið 2030.
Samgöngur bera meginábyrgð á losun
Um 42% af heildarlosun í Reykjavík árið 2024 má rekja til götuumferðar eða um 263 þúsund tonna CO₂ ígilda. Samgöngur í heild, þar með talið skipasiglingar og flug, standa undir um 52% af heildarlosun borgarinnar, eða um tæplega 320 þúsund tonnum CO₂ ígilda.
Orkuskipti í samgöngum eru þó hröð. Hlutfall ekinna kílómetra á rafmagnsbílum hefur aukist töluvert á síðustu árum og var komið í um 12% árið 2024, samanborið við 7% árið 2023 og aðeins 1% árið 2019.
Þessi þróun, ásamt samþykktri stefnu um göngu- og hjólvæna borg og uppbyggingu almenningssamgangna samkvæmt samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, styður við markmið um lægri losun í samgöngum.
Byggingariðnaðurinn í lykilhlutverki
Losun frá byggingariðnaði nam 13% af heildarlosun Reykjavíkurborgar árið 2024, eða um 81 þúsund tonnum CO₂ ígilda. Þar af voru 70 þúsund tonn tengd byggingarefnum og 11 þúsund tonn vegna eldsneytisnotkunar við framkvæmdir.
Reykjavíkurborg tekur þátt í samstarfsverkefninu Byggjum grænni framtíð, þar sem stjórnvöld og hagaðilar byggingariðnaðarins vinna saman að vistvænni mannvirkjagerð. Frá og með 1. september 2025 verður skylda samkvæmt byggingarreglugerð að framkvæma losunargreiningu fyrir meginþorra nýbygginga, sem mun auka gagnsæi og stuðla að umhverfisvænni lausnum.
Losun vegna úrgangs fór vaxandi
Heildarlosun vegna úrgangs jókst um 13% á árinu 2024 og var alls um 86 þúsund tonn CO₂ ígildi. Þótt urðun hafi minnkað verulega síðustu tvö ár, hefur losun vegna brennslu erlendis aukist. Áfram losnar úr úrgangi sem urðaður var á undanförnum árum og áratugum, sem hægir á lækkun losunarinnar.
Reykjavíkurborg er ein af 112 borgum sem valdar hafa verið til þátttöku í Evrópusamstarfi um kolefnishlutlausar og snjallar borgir árið 2030. Hluti af því verkefni er vinnan við Loftslagsborgarsamning, sem er samstarfssamkomulag milli borgarinnar og fjölbreyttra aðila í samfélaginu um aðgerðir til að draga úr losun og hraða orkuskiptum.
Markmiðið er að Reykjavík verði kolefnishlutlaus fyrir árið 2030, í takt við Parísarsamkomulagið og framtíðarsýn Evrópusambandsins um kolefnishlutlausa álfu árið 2050.