Ljósmyndir af sundlaugum Íslands í miðborginni

Ljósmyndasýning eftir Braga Þór Jósefsson hefur opnað í Austurstræti.

Í síðustu viku opnaði ljósmyndasýning eftir ljósmyndarann Braga Þór Jósefsson í miðborg Reykjavíkur. 

Verkin eru fengin úr bókinni Synt um allt land- Swim Around Iceland, sem kom út árið 2024 og inniheldur loftmyndir af útisundlaugum um allt land, teknar með dróna og beint niður. Myndirnar eru sýndar utandyra á sérstökum stöndum sem staðsettir eru í Austurstræti og gefa áhugafólki færi á að njóta listarinnar á almannafæri.

Gestir geta séð fjölbreytt úrval af laugum, þar á meðal Vesturbæjarlaug, Laugardalslaug, Sundhöll Reykjavíkur og fleiri sundstaði um allt land. 

Um listamanninn

Bragi Þór Jósefsson er reyndur ljósmyndari frá Reykjavík með B.F.A gráðu frá Rochester Institute of Technology í New York. Eftir nám starfaði hann bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi, og hélt fjölmargar einkasýningar, meðal annars á Ljósmyndasafni Reykjavíkur og á Kjarvalsstöðum. Hann er einn af stofnmeðlimum og núverandi stjórnarmaður Félags íslenskra samtímaljósmyndara. Verk hans hafa birst í alþjóðlegum miðlum eins og Forbes, Wall Street Journal og National Geographic.

Við hvetjum borgarbúa til að kíkja á þessa skemmtilegu sýningu í miðborginni.