Lífleg regnbogahátíð frístundaheimila

Frístundaheimilin í frístundamiðstöðinni Kringlumýri, sem þjónar börnum í Laugardals-, Háaleitis- og Bústaðahverfi, sameinuðust í gær til að halda upp á Regnbogadaginn – skemmtilegan og litríkan viðburð sem fagnar mikilvægi frístundastarfs í lífi barna.
Stöðvar með þrautum og leikjum
Dagurinn hófst með skrúðgöngu frá Þróttaraheimilinu þar sem börn og starfsfólk gengu saman að frístundaheimilinu Laugarseli. Þar tók við lífleg hátíð með fjölbreyttum leikjum og þrautum sem hvert frístundaheimili hafði undirbúið af mikilli alúð. Börnin fengu að prófa ýmiss konar skemmtileg verkefni á mismunandi svæðum, allt frá skylmingum og puttaprjóni til reipitogs. Hvert frístundaheimili táknaði einn lit regnbogans og saman mynduðu þau litríka heild sem endurspeglaði fjölbreytileikann og gleðina sem einkenna frístundastarfið.

Heimsókn lögreglunnar vakti lukku
Samfélagslöggan tók virkan þátt í hátíðinni og mætti með tvö mótorhjól og lögreglubíl. Börnin fengu að skoða ökutækin, sitja á hjólunum og spjalla við lögregluna sem vakti mikla lukku og áhuga.

Í lok dagsins fengu öll börnin ís og hópmynd var tekin til minningar um daginn. Undirbúningur fyrir Regnbogadaginn fór fram á frístundaheimilunum þar sem börnin máluðu boli, fána og skreytingar í litum hvers heimilis – sem skapaði skemmtilega og persónulega stemningu á hátíðinni.
Regnbogadagurinn er einstakt tækifæri til að sýna fram á það mikilvæga og skapandi starf sem fer fram á frístundaheimilum. Áhersla var á leik, félagsfærni og barnalýðræði og börnin nutu sín til hins ýtrasta.