Leiðrétting á álagningu fasteignaskatts gistirýma

Með breytingum á lögum sem tóku gildi 13. maí 2024, er gististarfsemi í flokki II nú gert að vera í skráðu atvinnuhúsnæði. Því fylgir breyting á skattflokkum skv. 3. gr. laga nr. 4/1995, ásamt samræmingu og leiðréttingu álagningar.
Slík leiðrétting stuðlar að jafnræði, gagnsæi og réttmætum væntingum rekstraraðila og er í samræmi við gildandi lög og vandaða stjórnsýsluhætti.
Þetta þýðir að ákveðnar fasteignir með rekstrarleyfi hafa verið flokkaðar í skattflokk A (0.18%) en eiga að vera í flokki C (1.6%). Leiðréttingin tók gildi 1. janúar 2025 en verður ekki gerð afturvirk. Álagningarseðill með leiðréttri álagningu mun birtast rekstraraðilum í stafrænu pósthólfi á island.is þann 27. janúar nk.
Jafnræði á milli rekstraraðila
Reykjavíkurborg er skylt að samræma og leiðrétta álagningu vegna fasteignaskatts í samræmi við raunverulega nýtingu fasteignar og gæta jafnræðis milli rekstraraðila gististaða í flokki II. Ef slík leiðrétting fer ekki fram, gæti það leitt til frekara ójafnræðis í framtíðinni.
Nánari upplýsingar um breytingarnar má finna á vef Reykjavíkurborgar.