Lag gegn einelti frumflutt í Grandaskóla – Öll í sama liði
Lagið Öll í sama liði var frumflutt í Grandaskóla í morgun í tilefni af Degi gegn einelti. Í ár fékk Reykjavíkurborg listafólkið Júlí Heiðar og Dísu með sér í lið til að semja lag sérstaklega fyrir Dag gegn einelti sem þau fluttu svo Grandaskóla fyrir fullum sal.
Grandaboys hituðu upp
Hljómsveitin Grandaboys sem skipuð er meðlimum í 7. bekk Grandaskóla hitaði upp og fékk mjög góðar undirtektir enda virkilega þétt band. Landsmenn eiga örugglega eftir að heyra meira frá þessum flottu strákum í framtíðinni.
Reykjavík tekur virkan þátt í að skapa vinsamlegt samfélag
Dagur gegn einelti er 8. nóvember og er tileinkaður baráttunni gegn einelti í skólum, frístundastarfi og samfélaginu í heild. Reykjavíkurborg tekur virkan þátt í að efla vitund og aðgerðir gegn einelti og leggur áherslu á að skapa vinsamlegt samfélag þar sem öll börn og ungmenni fá að tilheyra.
Lagið sem þau Júlí Heiðar og Dísa sömdu ber heitið Öll í sama liði og ber með sér skilaboð um virðingu, vináttu og samkennd. Lagið er hugsað sem hvatning til að standa saman gegn einelti og skapa öruggt og jákvætt samfélag fyrir börn og ungmenni þar sem öll eiga sér tilverurétt.
Skylda samfélagsins að bregðast við og vernda börn
Einelti er ekki einkamál, það er ofbeldi sem getur haft djúpstæðar og langvarandi afleiðingar fyrir þolendur, gerendur og vitni. Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga öll börn rétt á vernd gegn ofbeldi og því er það skylda samfélagsins að bregðast við og vernda börn og ungmenni.
Markmið dagsins eru:
- Að vekja umræðu og fræðslu um einelti og áhrif þess.
- Að hvetja til jákvæðra samskipta, vináttu og samkenndar.
- Að styrkja sjálfsvitund og félagsfærni barna og ungmenna.
- Að valdefla vitni eineltis til að grípa inn í og sýna stuðning.
Skóla- og frístundasvið borgarinnar hefur þróað fjölbreytt fræðsluefni og myndbönd í samstarfi við sérfræðinga, sem nýtt eru í skólastarfi og frístundastarfi til að efla umræðu og skilning á einelti.