Jólaborgin í jólaskapi

Fallega skreyttur Austurvöllur
Austurvöllur í jólabúningi

26 styrkjum var úthlutað úr viðburðapotti jólaborgarinnar til listafólks sem mun skemmta gestum og gangandi í miðborginni á aðventunni.

Kórsöngur, harmonikkutónlist, jólaseiður og lúðrablástur mun óma um miðborgina og sjá til þess að halda uppi jólastemningunni svo allir komist í jólaskap.

Jólasveinarnir verða á vappi og tröllið Tufti ásamt fjölskyldu munu bregða á leik allar helgar fram að jólum. Jólaálfar munu birtast hér og þar og margt í boði fyrir börn og fullorðna. Boðið verður upp á flesta viðburði um helgar og svo síðustu dagana fyrir jól. Alltaf bætist eitthvað nýtt í jólaborgina og er fólk hvatt til að gera sér glaðan dag í borginni á aðventunni. Allt ókeypis og að sjálfsögðu öll velkomin.

Jólaljósin lýsa upp Austurvöll

500 þúsund ljósaperur og 50 kílómetrar af jólaseríum prýða nú jólaborgina og ættu allir að komast í jólaskap. Fjölbreytt dagskrá verður í boði í  jólaborginni, á söfnum, í Elliðaárdalnum og Fjölskyldu- og húsdýragarðinum alla aðventuna og ættu öll að finna sér eitthvað skemmtilegt að gera.

Jólakötturinn er á sínum stað og nú hafa Grýla og Leppalúði bæst í hópinn í gróðurhúsinu við Lækjartorg. 

Oslóartréð á Austurvelli, sem á sér fastan sess í hugum borgarbúa, verður tendrað á ljósunum á trénu á fyrsta í aðventu, sunnudaginn 30. nóvember, og markar það upphaf aðventunnar.