Jafningjafræðslan er klár

Ungmennin sem sinna í Jafningjafræðslunni í ár.
Ungmennin sem sinna í Jafningjafræðslunni í ár.

Jafningjafræðsla Hins Hússins hefur verið að störfum í sumar en verkefnið er hluti af forvarnarstarfi Reykjavíkurborgar og byggir á þeirri hugmynd að ungur fræði ungan á jafningjagrundvelli. Í ár hafa þau meðal annars rætt um forvarnarátakið Verum klár sem er á vegum Reykjavíkurborgar.

Jafningjafræðsla Hins Hússins hefur verið að störfum í sumar en verkefnið er hluti af forvarnarstarfi Reykjavíkurborgar og byggir á þeirri hugmynd að ungur fræði ungan á jafningjagrundvelli. Á hverju sumri tekur við nýr jafningjafræðsluhópur en að jafnaði eru það 15 ungmenni á aldrinum 16 – 20 ára.

Tilgangur Jafningjafræðslunnar er að efla og hvetja ungmenni til sjálfstæðrar hugsunar og búa til virkar umræður um hin ýmsu mál. Jafningjafræðslan hittir hóp ungmenna og eyðir deginum með þeim. 

Stella og
Stella Rut Friðriksdóttir og Ingunn María Aurora í Jafningjafræðslunni bregða á leik.

Verum klár!

Undanfarin ár hefur umræðuefni jafningjafræðslunnar snúist um jafnrétti kynjanna, fordóma og kynlíf. Í ár hafa þau meðal annars rætt um forvarnarmál og kynnt Verum klár átakið sem Reykjavíkurborg stendur fyrir. Átakið miðar að því að efla forvarnarfræðslu til ungmenna og sporna þannig við neikvæðri þróun hvað varðar áfengis- og vímuefnaneyslu og ofbeldi meðal barna. 

Í sumar hafa fræðararnir heimsótt vinnuskólahópa í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum. Lögð er áhersla á að skapa öruggt rými, opna á mikilvæga umræðu og ýta undir gagnrýna hugsun, sjálfsskoðun og virka þátttöku. Allt á jafningjagrundvelli.

 

Ungmennin í Jafningjafræðslunni heimsóttu borgarstjóra í gær
Ungmennin í Jafningjafræðslunni heimsóttu borgarstjóra í gær.

Ungmennin sem vinna sem jafningjafræðarar í ár segja starfið mjög gefandi og þroskandi en um leið krefjandi. Á hverjum degi séu nýjar áskoranir og umræður sem stundum þarf að nálgast á varfærinn hátt. Jafningjafræðararnir segja starfið mikilvægt því þau séu að miðla upplýsingum sem eru mikilvægar fyrir alla og nauðsynlegt að ræða og fræða í leiðinni.