Íslensk sundlaugarmenning staðfest á skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns

Fjölmenni í heita pottinum í Laugardalslaug

Um er að ræða stóran áfanga og mikla viðurkenningu á menningarlegu gildi sundlaugamenningar. Þetta er fyrsta sjálfstæða skrásetning Íslands á lista UNESCO. 

Í mars 2024 var sundlaugamenning á Íslandi tilnefnd á skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns. Í kjölfarið tók við 18 mánaða matsferli innan UNESCO sem lauk formlega í dag með fundi milliríkjanefndar samningsins sem fram fór í Nýju Delí á Indlandi þegar nefndin staðfesti að sundlaugarmenning Íslands hlýtur þessa æðstu viðurkenningu á sviði lifandi hefða.

Þetta er fyrst sjálfstæða skrásetning Íslands á listann. Að baki skrásetningunni liggur mikil undirbúningsvinna sem var í höndum Þjóðminjasafns Íslands og áður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum auk þess sem fjölmargir sundlaugagestir, hópar, félagasamtök og sveitarfélög komu að og studdu tilnefninguna með ýmsum hætti.

Í skrásetningunni felst viðurkenning á menningarlegu gildi sundlaugamenningar. Í tilnefningunni var lögð áhersla á sundlaugar sem almenningsrými og almenningsgæði, þar sem allar kynslóðir, fólk af öllum gerðum og stærðum, kemur saman til að synda, hreyfa sig, spjalla við félaga eða ókunnuga, njóta samfélags eða einveru umlukið vatni. Sundlaugamenning er hluti af hversdagsmenningu landsmanna, þar mætist fólk á baðfötum á jafningjagrundvelli. Sundlaugamenning styður þess vegna við líkamlega, andlega og félagslega heilsu.

Börn að leik í Laugardalslaug
Börn að leik í Laugardalslaug

Sundlaugarnar stór hluti af menningu og sögu Reykvíkinga

„Hitaveitan og sundlaugarnar eru stór hluti af menningu og sögu okkar Reykvíkinga og við erum stolt af þessari viðurkenningu UNESCO,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri. „Þær átta sundlaugar sem Reykjavíkurborg rekur eru hver með sína sérstöðu og sérstöku menningu en eiga það allar sameiginlegt að vera griðastaðir í flóknum og annasömum heimi. Það er satt sem oft er sagt að allir eru jafnir í sundi og það er fátt dásamlegra en að sjá borgarbúa á öllum aldri sækja í sundlaugarnar til að næra líkama og sál.“

“Ég fagna því gríðarlega að UNESCO hafi nú staðfest það sem við vitum - að íslensk sundlaugarmenning er engri lík! Skráningin er ekki síður mikilvæg áminningu um hversu mikill fjársjóður er fólginn í sundlaugarmenningu okkar. Að setja vatn í steypulaug er eitt en samtölin og samveran, oft á milli ólíkra fólks sem þekkjast jafnvel lítið eða ekki neitt, er eitthvað annað. Yfir 120 laugar eru um allt land sem eru í senn heilsueflandi bæði líkamlega og andlega og einn vinsælasti samkomustaður þjóðarinnar. Hver sundlaug hefur sitt sérkenni og ber með sér karakter síns bæjarfélags og gesta. Sundlaugar eru einn fárra staða þar sem símar eru skildir eftir og fólk talar raunverulega saman. Ég hvet sem flesta til þess að leita í sundlaugarnar eftir slökun og góðum samverustundum ekki síst nú þegar margir upplifa streitu í aðdraganda jóla. Þá er fátt betra en að skola af sér streituna, losa um málbeinið og njóta sundlaugarmenningarinnar,” segir Logi Einarsson menningar-, nýsköpunar og háskólaráðherra.

Franska bagette-brauðið og saunamenning eru á lista UNESCO um lifandi hefðir

UNESCO gerir ríka kröfu um þátttöku þeirra sem þekkja og stunda hefðina og því var óskað eftir stuðningi almennings við tilnefninguna. Haldnir voru fundir víðs vegar um landið þar sem tilnefningin var kynnt og óskað eftir sjónarmiðum viðstaddra. Fjölmargir sundlaugagestir og sundhópar víða um land lögðu tilnefningunni lið, sögðu frá upplifun sinni af sundlaugamenningu og lýstu yfir stuðningi við tilnefninguna. Hið sama á við um sundfélög sem og Sundsamband Íslands og UMFÍ (Ungmennafélag Íslands).

Rekstur sundlauga er í höndum sveitarfélaga og sendu tíu sveitafélög skriflega stuðningsyfirlýsingu, þar á meðal Reykjavíkurborg sem einnig hafði veg og vanda að gerð 10 mínútna myndbands um sundlaugamenningu sem fylgdi tilnefningunni. Þá studdi þáverandi forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tilnefninguna dyggilega.

Lista UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf hefur verið lýst sem litlu systur hinnar þekktu heimsminjaskrár. Á listanum er að finna afar fjölbreytt dæmi um menningararfleifð mannskyns en þar eru yfir 800 skrásetningar frá yfir 150 löndum. Dæmi um skrásetningar á listanum eru kínverskt skuggabrúðuleikhús, belgísk bjórmenning, miðjarðarhafsmataræði, franska bagettið og finnsk saunamenning. Á fundinum í Nýju Delí bættust auk íslensku sundlaugamenningarinnar á listann ljósahátíð Hindúa, Deepavali, frá Indlandi, marionette strengjabrúðuleikhús frá Belgíu, handverk við hefðbundna japanska papprísgerð og svissneska jóðlið.