Innritun í sjálfstætt starfandi leikskóla fyrir haustið er í Völu

Skóli og frístund

Börn í rólum á leikskóla.

Búið er að samræma umsóknir í alla leikskóla í Reykjavík, hvort sem um er að ræða borgarrekna eða sjálfstætt starfandi. Samkvæmt nýjum samningum við sjálfstætt starfandi leikskóla sem undirritaðir voru í desember síðastliðnum fara umsóknir um leikskólapláss í þeim leikskólum fara fram í gegnum Völu.

Foreldrar barna sem nú þegar hafa sótt um leikskólapláss í sjálfstætt starfandi leikskóla í gegnum önnur innritunarkerfi þurfa að sækja um aftur í gegnum Völu. Á síðu Reykjavíkurborgar er hægt að sjá upplýsingar um alla sjálfstætt starfandi leikskóla í Reykjavík og  á Völu er hægt er að sækja um leikskólapláss. Almennt gilda sömu reglur um röðun á biðlista og í borgarreknum leikskólum, sjá í reglum um leikskólaþjónustu. Þó verður heimilt, fyrir úthlutun leikskólaplássa haustið 2025, að sjálfstætt starfandi leikskólar geti innritað eftir þeim reglum sem í gildi hafa verið hjá þeim. Samkvæmt samningi við sjálfstætt starfandi leikskóla, er forgangur fyrir börn með lögheimili í Reykjavík sem velja sjálfstætt starfandi leikskóla í fyrsta vali á tímabilinu 1.mars - 15.apríl.   

Mikilvægt að foreldrar fari vel yfir umsóknir barna sinna

Við val á leikskóla er hægt að velja bæði borgarrekna og sjálfstætt starfandi leikskóla í sömu umsókn. Minnst þarf að velja tvo leikskóla og mest er hægt að velja sjö leikskóla. Vakin er athygli á því að það getur verið að sjálfstætt starfandi leikskólar hafi ákveðið að taka eingöngu inn börn sem hafa sett leikskólann í 1. val. 

Leikskólareiknirinn er hugsaður sem hjálpartæki fyrir foreldra barna á innritunaraldri, en hann er mælaborð sem sýnir lifandi gögn um biðlistatölur í leikskólum borgarinnar. Enn sem komið er nær leikskólareiknirinn einungis til borgarrekinna leikskóla. Fólk getur sett inn fæðingardag barns og séð áætlaða stöðu þess á biðlista eins og staðan er í dag. 

Úthlutun leikskólaplássa fyrir haustið 2025 hefst 3. mars og þurfa foreldrar að vera búnir að fara vel yfir sínar umsóknir í Völu fyrir þann tíma. Frá og með 3. mars og til 15. apríl verður ekki hægt að gera breytingar eða skrá nýjar umsóknir meðan á úthlutunartímabili stendur. Foreldrar geta valið allt að 7 leikskóla og velja skóla sem þeir kjósa helst í 1. val.