Hönnun Hlemmtorgs á lokastigi
Hönnun Hlemmtorgs og Borgarlínu við Hlemm og hluta Laugavegar var kynnt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur nýverið. Hönnun á þessum sjötta áfanga Hlemmtorgs er nú á lokastigi. Verkhönnunin er nú í rýni og er áætlað að því ferli ljúki í lok janúar. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í apríl eða maí á næsta ári og verði lokið um mitt ár 2027.
Lifandi miðborgartorg
Fulltrúar frá Verkefnastofu Borgarlínu og fulltrúi frá alþjóðlegu landslags- og arkitektastofunni Mandaworks, sem vann samkeppni Reykjavíkurborgar um landslagshönnun fyrir Hlemmtorg ásamt DLD Land design, kynntu verkefnið fyrir umhverfis- og skipulagsráði.
Hlemmur er smám saman að breytast og taka á sig nýja mynd sem almenningsrými, umhverfið þar er að verða mun gönguvænna og meira aðlaðandi fyrir fjölbreytt mannlíf og býður upp á margvíslega notkunarmöguleika.Hlemmsvæðið er markvisst hannað sem lifandi miðborgartorg með góðu aðgengi fyrir öll.
Almenningssamgöngur eina akandi umferðin
Almenningssamgöngur verða eina akandi umferðin um torgið. Hönnuðir leggja áherslu á samþættingu hjóla- og gönguleiða, sem mun stuðla að auknu umferðaröryggi, betra aðgengi og að virku borgarlífi.
Það verður spennandi að sjá Borgarlínugötuna birtast ásamt stöðvum og nýjum hluta Hlemmtorgsvæðis á næstu misserum. Hönnunin snýst ekki aðeins um að koma Borgarlínunni fyrir heldur er gert ráð fyrir góðri aðstöðu við stoppistöðvar eins og hjólahúsi, stæðum fyrir rafskútur og opnum hjólastæðum, ásamt aðstöðu til að setjast niður og njóta umhverfisins.
Stórbætt leið hjólandi gegnum svæðið
Gætt er að öryggi allra á svæðinu, en tvístefnu hjólastígur liggur niður Laugaveginn og í gegnum Hlemmtorg norðan við stoppistöðvar en stígurinn mun aðlagast að torgsvæðinu til að hægja á umferð hjólandi vegfarenda. Leið hjólandi fólks verður stórbætt um svæðið að framkvæmdum loknum.
Lögð er mikil áhersla á að gera svæðið gróðursælt með fjölbreyttum gróðri en þarna verða líka ofanvatnsbeð, sem eru sérstök gróðurbeð sem taka á móti regnvatni. Nú þegar er búið er að koma fyrir setsvæðum og gróðri á torginu sem hefur strax gefið svæðinu nýja ásýnd.
Í sumar var yngstu kynslóðinni boðið til leiks á Hlemmi með tímabundnum leikvelli, sem gefur tóninn fyrir það sem koma skal með væntanlegri leikhöll á austurhluta torgsins. Á Hlemmi munu kynslóðirnar fá tækifæri til að mætast í afslöppun og leik. Áður hefur mathöll með öllu sínu mannlífi, ilmandi matarlykt og samveru, fundið sér stað í húsinu sem hýsti skiptistöð Strætó. Fólk hefur lengi átt leið um Hlemm en nú hefur það fengið fleiri góðar ástæður til að staldra þar við og njóta umhverfisins. Það verður gaman að fagna því þegar hægt verður að ferðast þangað með Borgarlínunni. Sýnir hönnunin sem kynnt var nú hvernig Hlemmur mun líta út þegar almenningssamgöngur verða aftur í fyrirrúmi á torginu en Strætó hætti að keyra þangað sumarið 2024.