Hlíðaskóli fagnaði 70 ára afmæli með glæsilegri aðventuhátíð
Hlíðaskóli hélt veglega upp á 70 ára afmæli sitt fyrir stuttu með aðventu- og afmælishátíð þar sem nemendur sýndu fjölbreytt og skapandi starf sem einkennir skólann. Hátíðin var haldin í skólanum og var vel sótt af foreldrum, fjölskyldum og gestum.
Hljóðfæraleikur, dans og söngur
Áhersla Hlíðaskóla á verk- og listgreinar kom skýrt fram í dagskránni. Kór skólans flutti falleg jólalög undir stjórn tónlistarkennarans Sigríðar Jóhannsdóttur og sérkennara Rakelar Guðmundsdóttur. Nemendur úr Skólahljómsveit Vesturbæjar og miðbæjar léku á hljóðfæri, og danskennsla nemenda var einnig í forgrunni með nútímadansi og atriðum úr söngleikjum.
Sýndu brot úr söngleikjum
Hlíðaskóli hefur lengi haft hefð fyrir því að setja upp söngleiki í öllum bekkjum, og gestir fengu að sjá brot úr þessum vinsælu sýningum. Nemendur í 7. bekk sýndu atriði úr söngleiknum „Úr fortíð til framtíðar“ og fluttu lög bæði sungin og á táknmáli. Einnig voru dansatriði úr Kardimommubænum og fleiri skemmtilegum verkefnum.
Sýniningin endaði á hugljúfu jólalagi sem skapaði notalega stemningu. Það var ljóst að Hlíðaskóli er stoltur af skapandi starfi sínu og sterkri listhefð sem hefur einkennt skólann í 70 ár.
Að dagskrá lokinni var gestum boðið að ganga um skólann og skoða metnaðarfullar skreytingar og njóta ýmiskonar skemmtunnar í kennslustofum. Loks var öllum boðið upp á afmælisköku og kakó í íþróttahúsinu.