
Vetrarhjólreiðarnar byrja vel í ár en töluverð aukning varð á umferð hjólandi fólks á milli ára bæði í janúar og febrúar. Á höfuðborgarsvæðinu var aukningin 6,2% í janúar og 21,7% í febrúar miðað við í fyrra.
Aukningin var mismikil á milli staða en sem dæmi ef litið er til febrúarmánðar, þá fjölgaði um rúm 11% í Nauthólsvík, 32% á Ægisíðu og 68% á Þvottalaugavegi í Laugardalnum. Hjólatalningarstaðir eru alls 29 á höfuðborgarsvæðinu og fylgist Reykjavíkurborg með þeim öllum.
Mörg eru því greinilega vel búin á hjólinu en nauðsynlegt var að klæða sig vel því veðrið hefur verið rysjótt líkt og í fyrra með þó nokkrum dögum af slæmu veðri, gulum viðvörunum og meira að segja rauðri viðvörun.
