Hilmar Ingi Jónsson ráðinn persónuverndarfulltrúi

Hilmar Ingi Jónsson persónuverndarfulltrúi Reykjavíkurborgar. Brjóstmynd af honum í jakkafötum erlendis, með pálmatré í baksýn

Hilmar Ingi Jónsson hefur verið ráðinn persónuverndarfulltrúi Reykjavíkurborgar.

Hann útskrifaðist með BSc úr viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst og hefur tvöfalt meistarapróf í lögfræði. Annars vegar lauk hann meistaragráðu í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri og hins vegar útskrifaðist hann með meistaragráðu í upplýsingatæknilögfræði frá Háskólanum í Osló.

Hilmar Ingi hefur búið og starfað í Noregi undanfarin 13 ár og meðal annars gegnt starfi persónuverndarfulltrúa hjá sveitarfélögunum Årdal, Sogndal, Lærdal, Larvik og Lilleström og núna síðast hjá Tollinum í Noregi. Hilmar Ingi hefur margra ára reynslu í að leiða teymi sérfræðinga í persónuvernd og að taka þátt í teymisvinnu á ólíkum sviðum. Þá hefur hann haldið fjölmörg námskeið í persónuvernd fyrir stjórnendur sveitarfélaga í Noregi og fyrirlestra á ýmsum ráðstefnum er varða persónuvernd og upplýsingatækni. Í störfum sínum hefur Hilmar Ingi tekið þátt í helstu verkefnahópum í Noregi er varða persónuvernd og setið í stjórn samtaka persónuverndarfulltrúa stærstu sveitarfélaga Noregs.

Starf persónuverndarfulltrúa Reykjavíkurborgar var auglýst til umsóknar 20. maí síðastliðinn. Alls bárust 12 umsóknir og var Hilmar Ingi valinn að loknu ítarlegu ráðningarferli. Persónuverndarfulltrúi mun starfa náið með stjórnendum og sérfræðingum að persónuverndarmálum og leiða teymi sérfræðinga í persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga innan Reykjavíkurborgar. Hilmar Ingi hefur störf hjá Reykjavíkurborg um miðjan ágúst en starfsstöð hans er á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.