Heilsa og líðan hinsegin fólks verri en annarra

Heilsa Mannréttindi

Róbert Reynisson
fólk sitjandi á stólum í Pollinum á kynningu um rannsóknina Heilsa og líðan hinsegin fólks

Hinsegin fólk býr almennt við verri heilsu og líðan en þau sem eru ekki hinsegin og ljóst er að ráðast þarf í aðgerðir til að bæta þar úr. Þetta sýna niðurstöður rannsóknarinnar Heilsa og líðan hinsegin fólks, sem kynntar voru í Ráðhúsinu í dag.

Rannsóknarverkefnið Heilsa og líðan hinsegin fólks er hluti af aðgerðaáætlun lýðheilsustefnu Reykjavíkur og hlaut verkefnið styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið 2024. Verkefnið var samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Samtakanna ´78- Félags hinsegin fólks á Íslandi. Rannsóknin byggði á gögnum úr könnuninni Heilsa og líðan sem embætti landlæknis framkvæmir á fimm ára fresti. Sérstaklega voru skoðaðir lykilþættir á borð við reynslu af ofbeldi, áfengis- og vímuefnaneyslu og geðheilsu og varpaði rannsóknin ljósi á einstakar áskoranir hinsegin samfélagsins á þeim sviðum.

Markmiðið var að komast að því hvort almenn heilsa og líðan hinsegin fólks sé ólík heilsu og líðan sís gagnkynhneigðra, með sérstaka áherslu á áfengis- og vímuefnaneyslu og upplifun af ofbeldi. Erlendar rannsóknir sýna ítrekað fram á að heilsa og líðan hinsegin fólks sé marktækt verri en annarra og eru sterkar vísbendingar um hið sama í íslensku samfélagi.

Niðurstöðurnar nýttar til að móta aðgerðir og styðja við heilsu hinsegin fólks

Hinsegin fólk kom verr út úr nánast öllum lykilþáttum sem kannaðir voru í rannsókninni. Þau upplifa líkamlega og andlega heilsu sína verri en þau sem ekki eru hinsegin og eru líklegri til að hafa upplifað eða verið með síþreytu, kvíða, streitu, áfallastreituröskun og/eða þunglyndi. Þá eru hinsegin einstaklingar líklegri til að hafa orðið fyrir hvers kyns ofbeldi; andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu.

Niðurstöðurnar verða nýttar í að móta markvissari aðgerðir og stefnur til að styðja við lýðheilsu hinsegin fólks. Þar eru forvarnir lykilþáttur en einnig fræðsla um hinsegin málefni innan heilbrigðiskerfisins og aukinn stuðningur við hinsegin samfélagið.

Helstu niðurstöður.

Skýrslan á íslensku.

Skýrslan á ensku.

Harpa Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri lýðheilsumála á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara heldur framsögu um Heilsu og líðan hinsegin fólks í Pollinum í Ráðhúsinu. Stendur við skjá og bendir á gögn

Harpa Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri lýðheilsumála á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.