Gunnlaugur í Gleðibankanum hefur haft jákvæð áhrif á hundruð unglinga

Mynd af Gunnlaugi Víði í Gleðibankanum.

Gunnlaugur Víðir Guðmundsson, forstöðumaður Félagsmiðstöðvarinnar Gleðibankans í Hlíðaskóla, tók á móti Hvatningarverðlaunum í tilefni af Degi gegn einelti fyrir framúrskarandi gott og fyrirbyggjandi starf gegn einelti.

Einróma niðurstaða dómnefndar

Það var dómnefnd á vegum Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu og Heimilis og skóla sem valdi verðlaunahafann úr fjölda tilnefninga og var ákvörðun dómnefndar einróma. Verðlaunaafhendingin fór fram fyrir fullu húsi í Menntaskólanum að Laugarvatni þar sem kór Menntaskólans flutti nokkur lög. Að auki komu þeir Páll Óskar og Benni Hemm Hemm fram og fluttu sitt hjartnæma lag „Eitt af blómunum“ sem átti vel við tilefnið.

Hefur haft áhrif á sjálfsmynd, líðan og farsæld unglinga

Guðlaugur Víðir, eða Gulli eins og hann er kallaður, hefur starfað í félagsmiðstöðvastarfi með unglingum í tvo áratugi. Undir hans leiðsögn hefur frábært fagstarf í Gleðibankanum haft jákvæð áhrif á sjálfsmynd, líðan og farsæld hundruða unglinga í gegnum árin og má segja að Gleðibankinn sé framúrskarandi í sértæku hópastarfi með unglingum á landsvísu. Við hjá Reykjavíkurborg erum afar stolt af Gulla og Gleðibankanum!