Gott að huga að forvörnum vegna jarðskjálfta

Róbert Reynisson
Loftmynd yfir Reykjavík, útsýni frá Sæbraut, yfir miðborg, að Hallrímskirkju og Perlu. Sjór í forgrunni, fjöll og sjór í bakgrunni. Mistur yfir.

Spenna hefur undanfarið byggst upp í Brennisteinsfjöllum á Reykjanesi, suður af höfuðborgarsvæðinu. Spenna í jarðskorpunni getur leitt af sér stóran jarðskjálfta og því er gott að huga að vörnum og viðbúnaði vegna mögulegra skjálfta.

Skjálfti sem varð í Brennisteinsfjöllum á mánudaginn er sá stærsti á svæðinu í sjö ár. Stórir skjálftar verða á um 50 ára fresti á þessum slóðum og gera má ráð fyrir að spennan í jarðskorpunni geti á endanum leitt af sér jarðskjálfta allt að 6,4 að stærð.

Sérfræðingar meðal annars hjá Veðurstofu Íslands fylgjast vel með stöðunni en öll getum við búið okkur undir mögulegan stóran skjálfta með því að huga að jarðskjálftavörnum. Forvarnir eru mikilvægar og má þar nefna að tryggja að húsgögn og lausir hlutir séu festir við veggi á heimilum og vinnustöðum til að draga úr hættu á slysum og tjóni. Þá er gott að fyrirbyggja að skápar eða munir geti fallið á svefnstaði og að eiga hleðslubanka eða hleðslutæki til að hafa í bifreið svo hægt sé að hlaða síma ef rafmagn dettur út í lengri tíma, svo eitthvað sé nefnt.

Við hvetjum öll til að kynna sér vel upplýsingar um varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta og gera viðeigandi ráðstafanir þar sem ástæða er til.

Varnir og viðbúnaður vegna jarðskjálfta.