Góð þátttaka í íbúasamráði á Kjalarnesi

Vel var mætt á íbúafundinn á Kjalarnesi.

Vel heppnaðir samráðsdagar um framtíðarskipulag Kjalarness fóru fram í Klébergsskóla dagana 29. og 30. apríl síðastliðinn. Þar hófst formlega vinna við endurskoðun aðalskipulags Kjalarness og gerð hverfisskipulags fyrir Grundarhverfi og nágrenni.

Þátttaka íbúa var öflug og kom skýrt fram að Kjalnesingar hafa sterka sýn á framtíð byggðar á svæðinu – sem byggir á náttúru, samfélagi og sérstöðu svæðisins sem sveit í borg.

Þrískipt samráð

Samráðið voru þrískipt. Fyrst var rætt við nemendur í Klébergsskóla sem komu með góðar hugmyndir um hvernig bæta megi hverfið. Þeir lögðu meðal annars áherslu á að fjölga leiksvæðum, bæta gróður og koma á þjónustu eins og matvöruverslun og ísbúð.

Seinna sama dag fór fram íbúaþing þar sem rætt var um framtíð þéttbýlis í Grundarhverfi, húsnæðismál, þjónustu, atvinnu og samgöngur. Daginn eftir var opið hús með sérfræðingum Reykjavíkurborgar þar sem íbúar gátu komið hugmyndum sínum á framfæri og fengið svör við fyrirspurnum.

Sterkar raddir íbúa og skýr framtíðarsýn

Íbúar leggja áherslu á að efla byggð í Grundarhverfi með fjölbreyttum húsnæðiskosti fyrir alla aldurshópa. Fram kom eindregin ósk um að byggðin þróist í takt við sérstöðu svæðisins, með lágreistri byggð í bland við náttúru og grænt umhverfi. Sérstaklega var bent á þörf fyrir hjúkrunarheimili, leik- og grunnskóla, íþróttaaðstöðu og matvöruverslun til að styrkja innviði.

Einnig var rætt um að nýta tækifæri til atvinnuuppbyggingar, bæði í tengslum við ferðaþjónustu og aðrar nýsköpunargreinar. Þá komu fram skiptar skoðanir á stórfelldri matvælaframleiðslu í nágrenni við íbúabyggð. 

Samgöngur voru mikið ræddar, og áhersla lögð á að bæta almenningssamgöngur, sérstaklega fyrir börn og ungmenni. Kjalnesingar vilja hraða uppbyggingu Sundabrautar og bæta tengingar við Vesturlandsveg til að bæta aðgengi að og frá hverfinu. 

Netkönnun opin til 1. júní

Í framhaldi af samráðsfundunum hefur verið opnuð netkönnun á vef hverfisskipulags Reykjavíkur. Markmiðið er að safna enn frekar hugmyndum íbúa og fá innsýn í styrkleika og sóknarfæri Kjalarness með tilliti til aðalskipulags og hverfisskipulags.