Gleðigangan - einstök stemning í blíðskaparveðri

Borgarstjórn í Gleðigöngunni 2025
Borgarstjórn í Gleðigöngunni 2025

Mikill fjöldi fólks safnaðist saman í miðborg Reykjavíkur til að taka þátt í og fylgjast með Gleðigöngunni sem fór fram í dag. Ætla má að um og yfir 80 þúsund manns hafi tekið þátt í gleðinni þegar hátíðahöldin stóðu sem hæst.

Gleðigangan er hápunktur Hinsegin daga. Í henni sameinast lesbíur, hommar, tví- og pankynhneigðir, trans fólk, intersex fólk og aðrir hinsegin einstaklingar ásamt fjölskyldum sínum og vinum til að staðfesta tilveru sína og minna á baráttumál sín. 

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri að gefa rósir til gesta í Gleðigöngunni.
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri að gefa rósir til gesta í Gleðigöngunni.

Gangan lagði af stað frá Hallgrímskirkju stundvíslega kl. 14:00 í dag og var gengið þaðan eftir Skólavörðustíg, Bankastræti, Lækjargötu og Fríkirkjuvegi. 

Borgarstjórn tók þátt, líkt og undanfarin ár, og Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri var í broddi fylkingar.

Skreyttur bill Reykjavíkurborgar

Fremst keyrði bíll frá Reykjavíkurborg sem var skreyttur með blöðrum sem mynduðu regnbogann í viðeigandi litum. Spiluð var dúndrandi tónlist, borgarstjóri og borgarfulltrúar dreifðu rósum við mikinn fögnuð gesta og héldu á borða þar sem á stóð „Reykjavik borgin okkar allra“. 

Einstök gleði við völd og stemningin
Einstök stemning þar sem gleðin var við völd.

Gangan endaði í Hljómskálagarðinum þar sem haldnir voru útitónleikar þar sem boðið var upp á fjölbreytt tónlistaratriði.

Borgarstjóri og borgarfulltrúar í Gleðigöngunni.
Borgarstjóri og borgarfulltrúar í góðum gír.

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri sagði Gleðigönguna standa algjörlega undir nafni. „Reykjavík vill vera borg þar sem öll geta lifað örugg og frjáls, óháð kynhneigð, kynvitund eða tjáningu. Gleðigangan í ár var blanda af öllu, baráttu fyrir réttlátu samfélagi, gleði yfir fjölbreytileika og ekki spillti fyrir að veðrið var dýrðlegt og stemningin var í einu orði sagt mögnuð!"