Garðeigendur bera ábyrgð á sínum gróðri

Gróður

Eftir því sem dagarnir styttast og veturinn nálgast er rétt að minna á ábyrgð garðeigenda á gróðri við lóðamörk. Með góðu viðhaldi tryggjum við að gróðurinn prýði en valdi ekki hindrunum eða hættu á götum og stígum. 

Samkvæmt byggingareglugerð þurfa garðeigendur að halda gróðri innan lóðarmarka. Þar segir „Lóðarhafa er skylt að halda vexti trjáa eða runna á lóðinni innan lóðarmarka. Sinni hann því ekki og þar sem vöxtur trjáa eða runna fer út fyrir lóðarmörk við götu, gangstíga eða opin svæði er veghaldara eða umráðamanni svæðis heimilt að fjarlægja þann hluta er truflun eða óprýði veldur, á kostnað lóðarhafa að undangenginni aðvörun.“


Helstu reglur varðandi gróður á lóðarmörkum eru:

  • Gróðurinn má ekki gera umferðarmerki minna sýnileg né skyggja á götulýsingu
  • Gangandi og hjólandi þurfa að eiga greiða leið um göngustíga
  • Þar sem vélsópar eða snjóruðningstæki fara um, skal lágmarkshæð gróðurs yfir stígum vera 2,80 metrar
  • Á akbraut (og þar sem sorphirða, slökkvilið eða sjúkrabílar fara), má gróður ekki vera lægri en 4,20 metrar
  • Hávaxnar trjátegundir má ekki planta nær lóðamörkum aðliggjandi lóða en 3,00 metrar.

Íbúar Reykjavíkur eru beðnir um að fara yfir trjá- og runnavöxt á lóðinni sinni og athuga hvort greinar eða gróður fari yfir gangstéttar, götulýsingu eða umferðarmerki.

Saman tryggjum við öryggi vegfarenda og gott borgarumhverfi!