Fyrsti áfangi deiliskipulags fyrir Leirtjörn Vestur auglýstur

Teiknaðar myndir af komandi byggð við Leirtjörn.

Reykjavíkurborg hefur auglýst fyrsta áfanga nýs deiliskipulags fyrir Leirtjörn Vestur. Þar er gert ráð fyrir uppbyggingu fjölbreyttrar og blandaðrar íbúðarbyggðar með áherslu á nálægð við náttúruna og blágrænar ofanvatnslausnir.

Í fyrsta áfanga er áætlað að úthluta lóðum, götum og borgarlandi til þeirra sem þegar hafa fengið lóðavilyrði. Samtök aldraðra fá lóð til uppbyggingar og jafnframt er gert ráð fyrir íbúðakjarna fyrir Félagsbústaði. Í áfanganum verða um 75 íbúðir reistar.
Heildarskipulagið gerir ráð fyrir um 330 íbúðum, 100 hjúkrunarrýmum, félagsheimili og leikskóla, auk almenns bílgeymsluhúss með samnýtingu bílastæða. Þá er gert ráð fyrir mögulegri uppbyggingu þjónustu á svæðinu, svo sem hjúkrunarheimili, þjónustukjarna eða leikskóla. 

Í næstu viku hefjast hverfadagar í Grafarholti og Úlfarársdal þar sem Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri mun heimsækja hverfið. Hægt verður að ræða verkefnin framundan, meðal annars nýtt deiliskipulag við Leirtjörn.