Fyrsta fjölmenningarstefnan samþykkt
Ný stefna um fjölmenningarborgina Reykjavík 2026–2030 var samþykkt í borgarstjórn í vikunni. Um er að ræða fyrstu stefnumótun sinnar tegundar sem skilgreinir Reykjavík sem fjölmenningarborg.
Á fundi borgarstjórnar 18. nóvember síðastliðinn var samþykkt að vísa stefnu um fjölmenningarborgina Reykjavík í samráðsferli í samráðsgátt Reykjavíkurborgar. Samráðsferlið hófst 21. nóvember og lauk 9. desember. Sjö umsagnir bárust. Drög að fjölmenningarstefnu, með tilliti til umsagna, voru síðan samþykkt í borgarstjórn á þriðjudaginn.
Framtíðarsýn fyrir fjölmenningarborgina Reykjavík
Stýrihópur um stefnumótun fjölmenningarborgarinnar Reykjavík var settur á laggirnar í febrúar í fyrra. Fékk hópurinn það hlutverk að móta heildstæða stefnu í málefnum innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Áhersla skyldi lögð á inngildingu, jafnrétti og virka þátttöku fyrir öll í borgarsamfélaginu.
Markmið stýrihópsins var að tryggja að fjölmenningarleg gildi endurspegluðust í allri stefnumótun sem og þjónustu borgarinnar og að framlagi innflytjenda yrði gert hærra undir höfði. Átti stýrihópurinn að endurskoða nálgun á málaflokkinn í heild sinni og skapa skýra framtíðarsýn á fjölmenningarborgina Reykjavík.
Stefnan er leiðarljós fyrir alla starfsemi borgarinnar og eru áherslur hennar ofnar inn í starfsemi og stefnumörkun Reykjavíkur. Starfið byggir á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma. Í aðgerðaráætlun er tryggt að öll svið borgarinnar endurskoði hvernig þeirra starfsemi sem atvinnurekandi, þjónustuveitandi og samstarfsaðili snertir þennan hóp borgarbúa.