Fjölmenningarstefna í samráðsferli

Við Tjörnina

Drög að stefnu um fjölmenningarborgina Reykjavík 2026-2030 er komin í samráðsgátt Reykjavíkurborgar þar sem öll geta komið með athugasemdir. Um er að ræða fyrstu stefnumótun sinnar tegundar sem skilgreinir Reykjavíkurborg sem fjölmenningarborg. 

Stýrihópur um stefnumótun fjölmenningarborgarinnar Reykjavík var settur á laggirnar í febrúar í fyrra. Fékk hópurinn það hlutverk að móta heildstæða stefnu í málefnum innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Áhersla skyldi lögð á inngildingu, jafnrétti og virka þátttöku fyrir öll í borgarsamfélaginu.  

Markmið stýrihópsins var að tryggja að fjölmenningarleg gildi endurspegluðust í allri stefnumótun sem og þjónustu borgarinnar og að framlagi innflytjenda yrði gert hærra undir höfði. Átti stýrihópurinn að endurskoða nálgun á málaflokkinn í heild sinni og skapa skýra framtíðarsýn á fjölmenningarborgina Reykjavík. 

Aðrar gildandi stefnur borgarinnar voru rýndar og frumgreining gerð á því hvernig þær snerta málaflokkinn í tengslum við starfsemi og ábyrgð hjá hverju sviði. Stefnumótunin var kynnt í ráðum og nefndum, einkum Mannréttindaráðinu sem fer með hlutverk fjölmenningarráðs. Hélt ráðið opinn fund með foreldrum af erlendum uppruna þar sem sérstaklega var óskað eftir ábendingum sem gætu nýst þessari stefnumótun. 

 Leiðarljós í starfsemi Reykjavíkurborgar

Stefnan er leiðarljós fyrir alla starfsemi borgarinnar og eru áherslur hennar ofnar inn í starfsemi og stefnumörkun Reykjavíkur. Starfið byggir á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma. Í aðgerðaráætlun er tryggt að öll svið borgarinnar endurskoði hvernig þeirra starfsemi sem atvinnurekandi, þjónustuveitandi og samstarfsaðili snertir þennan hóp borgarbúa. 

Borgarráð vísaði drögum að fjölmenningarstefnunni til borgarstjórnar sem fjallaði um málið á fundi sínum í vikunni og var samþykkt einróma að senda drögin í samráðsgátt. 

Opið samráð 

Samráðsgátt Reykjavíkurborgar er notuð til þess að kalla eftir hugmyndum og afstöðu borgarbúa til ýmissa verkefna hjá borginni og þar geta borgarbúar sagt sitt álit á fjölmörgum stefnumótunar- og framkvæmdaverkefnum sem unnið er að hverju sinni. Borgarbúar og hagmunasamtök eru hvött til að taka þátt í samráðinu og veita umsögn. Samráðsgáttin verður opin til 9. desember næskomandi.