Fróðlegt málþing í Samgönguviku
Fjölmargir gestir sátu áhugavert málþing um það nýjasta á ýmsum sviðum samgangna. Sérfræðingar sögðu frá nýju og stórbættu leiðakerfi Strætó, borgarlínustöðvum, landsbyggðarvögnum, gönguvænni borg, hjólreiðaborginni og aðgengi fyrir okkur öll. Greinilegt er að margt jákvætt er að frétta af samgöngumálum í höfuðborginni.
Málþingið var haldið í tilefni af Samgönguviku 2025 og að því stóðu Reykjavíkurborg, Vegagerðin, Betri samgöngur og Strætó BS.
„Auðvelt er að vera sammála því að góð hjólaborg auki lífsgæði allra borgarbúa: Loftgæði verða betri, líka fyrir þá sem hjóla ekki, íbúar verða heilsuhraustari og tafir í bílaumferð minni,“ sagði Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri sem setti málþingið þar sem nýtt myndband um Hjólaborgina var sýnt. Fyrsta hjólreiðaáætlun Reykjavíkur var samþykkt árið 2010 og Reykjavíkurborg hefur lagt mikla áherslu á að leggja árlega til nýja hjólastíga í borginni.
Hvað geta vinnustaðir gert?
Valur Elli Valsson sagði frá rannsókn þar sem spurt var: Hvernig geta vinnustaðir í miðborg Reykjavíkur geti aukið hlutdeild vistvænna ferðamáta hjá starfsfólki sínu með breyttum áherslum og hvötum?
Berglind Hallgrímsdóttir samgönguverkfræðingur fjallaði um hvernig umhverfi sem er hannað fyrir okkur öll, hvernig sem við erum, getur aukið ferðafrelsi og sjálfstæði einstaklinga sem eru háðir öðrum ferðamátum en bílnum. Enda var yfirskrift málþingsins Fjölbreyttar samgöngur fyrir öll!
Yngvi Karl Sigurjónsson arkitekt talaði um virkni borgarlínustöðva þar sem sýndar voru teikningar og myndir og farið var yfir útlit og ásýnd þeirra. Einnig var fjallað um það samráðsferli sem hönnunarteymið átti við Öryrkjabandalag Íslands við hönnun á skýlunum.
Hlynur Þór Agnarsson talaði um innleiðingu NaviLens merkinga á biðstöðvum og vögnum Strætó á höfuðborgarsvæðinu. Sigrún Helga Lund, prófessor í tölfræði við Háskóla Íslands og formaður starfshóps sem vann skýrslu með tillögum að heildstæðri stefnu stjórnvalda og aðgerðaáætlun um virka ferðamáta og smáfarartæki flutti áhugaverða samantekt af helstu niðurstöðum og tillögum skýrslunnar.
Gönguvæn borg og leiðakerfi
Rebekka Guðmundsdóttir borgarhönnuður hjá Reykjavíkurborg sagði frá hvernig gera mætti borgina gönguvæna. Cecilía Þórðardóttir hjá Vegagerðinni talaði um öryggi og bætt flæði almenningssamgangna og Hulda Rós Bjarnardóttir sagði frá nýjungum í leiðakerfi landsbyggðavagna en það voru meðal annars rafmagnsvagn og hjólagrindur.
Dóra Björt Guðjónsdóttir formaður umhverfis- og skipulagssviðs flutti svo lokaorð og hvatti til þess að áfram yrði því að skapa borg með fjölbreyttum samgöngum fyrir öll.
Dagskrá málþings
Ávarp borgarstjóra - Heiða Björg Hilmisdóttir.
Nýtt leiðakerfi og þjónustuaukning Strætó - Sólrún Svava Skúladóttir, Strætó BS.
Borgarlínustöðvar og aðgengi – Yngvi Karl Sigurjónsson frá Yrki arkitektum.
Nýtt leiðakerfi landsbyggðarvagna og nýjungar – Hulda Rós Bjarnadóttir, Vegagerðin.
Gönguvæn borg og borgarhönnunarstefnan – Rebekka Guðmundsdóttir, Reykjavíkurborg.
Hjólreiðaborgin Reykjavík – myndband.
Drög að stefnu stjórnvalda um virka vegfarendur - Sigrún Helga Lund prófessor, formaður starfshóps..
Aðgengi fyrir alla – Berglind Hallgrímsdóttir, EFLA.
Öryggisatriði og bætt flæði almenningssamgangna - Cecilía Þórðardóttir, Vegagerðin.
Bylting fyrir blinda- og sjónskerta - Hlynur Þór Agnarsson frá Reykjavík marketing f.h. Blindrafélagsins.
Áhrif samgöngustyrkja og aðgengilegra bílastæða á ferðavenjur fólks - Valur Elli Valsson, EFLU.
Lokaorð - Dóra Björt Guðjónsdóttir formaður umhverfis- og skipulagsráðs.
Fundarstjórn - Gunnar Hersveinn.