
Félagsmiðstöðin Hólmasel stóð fyrir nýjum og spennandi viðburði í síðustu viku fyrir foreldra barnanna sem sækja starfið. Markmiðið var að gefa foreldrum innsýn í starfið og sýna þeim frá fyrstu hendi af hverju börnin þeirra sækja starfið eða ættu að gera meira af því. Á sama tíma fá foreldrar tækifæri til að kynnast öðrum foreldrum og starfsfólkinu.
Spiluðu borðtennis og tölvuleiki
Viðburðurinn, sem fékk nafnið „Félagsmiðstöðvar hermir foreldranna“, gekk þannig fyrir sig að börnunum og unglingunum var skipað að taka því rólega heima hjá sér og jafnvel að ganga frá eftir kvöldmatinn. Á meðan fengu foreldrarnir að njóta kvöldsins í Hólmaseli, líkt og um venjulega kvöldopnun væri að ræða. Starfsmenn Hólmasels tóku á móti foreldrunum opnum örmum og buðu þeim að taka þátt í öllum þeim afþreyingum sem í boði eru fyrir börnin þeirra.
Foreldrarnir tóku ótrúlega vel í viðburðinn og nutu þess að spila borðtennis, pool og pílu. Margir prufuðu sig áfram í tölvuleikjum og fiktuðu í stúdíóinu, á meðan aðrir flettu í gegnum myndaalbúmin sem ná allt aftur til ársins 1992 og skoðuðu kunnugleg andlit frá því þau sóttu sjálf starfið í Hólmaseli.
Vilja ýta undir aukið foreldrasamstarf
Strax var ákveðið að gera þetta að mánaðarlegum viðburði fyrir foreldra hverfisins, síðasta fimmtudag í hverjum mánuði. Með þessu vilja starfsmenn Hólmasels leyfa foreldrum að losna frá amstri dagsins um stund, kíkja í Hólmasel og kynnast starfsfólkinu, starfinu og öðrum foreldrum hverfisins. Vonast er til að þetta sé einungis byrjunin á farsælu og auknu foreldrasamstarfi hjá félagsmiðstöðinni Hólmaseli.
Á myndinni er hluti starfsmanna Hólmasels: Þorkell Már Júlíusson, Erlingur Sigvaldason, Valgeir Þór Jakobsson.