Fjórar leik- og grunnskólalóðir og leiksvæði endurgerð

Skólalóð Vesturbæjarskóla. Í ár verður farið í fyrsta áfanga endurgerðar skólalóðar Austurbæjarskóla.
Hús og leiksvæði.

Alls verða þrjár lóðir við leik- og grunnskóla Reykjavíkurborgar endurgerðar á árinu. Til viðbótar verður leiksvæði við Skerplugötu endurgert. Áætlaður kostnaður við þetta er 165 milljónir króna.

Endurgerð skólalóða felur í sér heildar endurskipulagningu lóða og endurnýjun frá grunni. Aðgengi fyrir alla, lýsing, leiktæki, yfirborðsefni og svæði fyrir hugmyndaleiki barna verður bætt. Helstu verkliðir eru jarðvinna, landmótun, hellulögn, frágangur gras- og gróðursvæða, útskipti fallvarnarefna og frágangur kringum leiktæki. 

Endurgerð lóða er oft skipt upp í fleiri en einn áfanga en þær leik- og grunnskólalóðir sem verða endurgerðar á þessu ári eru:

  • Leikskólinn Hálsaskógur/Kot – Heildaráfangi
  • Leikskólinn Borg-Arnarborg - 2.áfangi
  • Austurbæjarskóli - 1.áfangi 

Stefnt er á að hefja framkvæmdir í maí/júní og áætlað að þeim ljúki í október/nóvember 2025.

Opið leiksvæði við Skerplugötu

Framkvæmdin felur í sér endurgerð á opnu leiksvæði sem stendur á borgarlandi við Skerplugötu. 

Hvað verður gert?

  • Endurnýja á yfirborð leiksvæða, það er fjarlægja perlumöl og setja hellur, gras, gervigras og fallvernarefni í staðinn.
  • Leiktæki verða endurnýjuð.
  • Lögð er áhersla á að gera leiksvæðið aðgengileg fyrir öll og bæta lýsingu sé þörf á því.

Framkvæmdin styður við stefnur Reykjavíkurborgar um aðgengi fyrir öll og borg fyrir börn. Gert er ráð fyrir að hægt verði að hefja framkvæmdir í maí og áætlað að þeim ljúki í ágúst 2025.

Borgarráð hefur nú heimilað umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út þessar framkvæmdir. Áætlaður heildarkostnaður við endurgerð leikskólalóða er 100 milljónir króna, við endurgerð grunnskólalóða 50 milljónir króna og 15 milljónir við opna leiksvæðið.