Alls bárust 265 tillögur í hugmyndasöfnun um betri nýtingu tíma og fjármuna Reykjavíkurborgar. Fjölbreyttar tillögur bárust og vinnuhópur sem fer yfir innsendingar hefur þegar hafið störf.
Á fundi borgarstjórnar 4. mars var lögð fram fyrsta aðgerðaáætlun á grundvelli samstarfsyfirlýsingar nýs meirihluta Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna. Meðal aðgerða var hugmyndaleit um sparnaðartillögur og var samráðsgátt Reykjavíkurborgar notuð til að framkvæma hugmyndasöfnunina. Öllum var frjálst að senda inn tillögur í söfnuninni, sem stóð til 30. apríl síðastliðins.
Sérstakur vinnuhópur fer yfir innsendar tillögur og dregur saman helstu niðurstöður sem kynntar verða í fagráðum, borgarráði og borgarstjórn. Hópurinn hefur þegar hafið störf og hann skipa Þorsteinn Gunnarsson borgarritari, Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir sérfræðingur á mannréttindaskrifstofu, Margrét Berg Sverrisdóttir verkefnastjóri stjórnsýslumála, Halldóra Káradóttir sviðsstjóri fjármála- og áhættustýringarsviðs, Vigfús Karlsson fjármálasérfræðingur og Arna Ýr Sævarsdóttir skrifstofustjóri á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Niðurstöðurnar verða meðal annars nýttar til að móta starfsemi borgarinnar þar sem við á, við gerð fjárhagsáætlunar og við útfærslu verkefna sem gætu stuðlað að því að nýta bæði tíma og fjármagn í fjölbreyttri starfsemi borgarinnar. Kostnaður við verkefnið felst eingöngu í vinnutíma starfsfólks.
Gætt er að persónuleynd við meðferð gagna í hugmyndasöfnuninni.
Hægt að skoða tillögur í samráðsgáttinni
Álit sem send voru inn birtust jafnóðum í samráðsgáttinni nema sendandi veldi að fela nafn sitt og álit. Mörg álitanna eru opin og má skoða þau í samráðsgáttinni. Tillögur sem bárust fjölluðu um rekstur borgarinnar í víðum skilningi og voru af ýmsum toga; sem dæmi má nefna rafvæðingu kvittanaskila vegna innkaupa, ráðningu húsvarðateymis fyrir leikskóla í stað útseldrar vinnu, endurskoðun samninga við hugbúnaðarfyrirtæki, skoðun kostnaðar vegna veikinda starfsfólks og sveigjanlegt lausnateymi sem þjónustar stofnanir og hverfi eftir þörfum.
Öllum sem sendu inn tillögur er þakkað kærlega fyrir þátttökuna.