Fjölbreyttar og fjölsóttar sumarsmiðjur fyrir kennara
Það var líf og fjör í Háteigsskóla þegar sumarsmiðjur fyrir kennara í grunnskólum Reykjavíkur voru haldnar dagana 11. - 13. ágúst. Aðsókn á sumarsmiðjurnar var mjög góð en alls voru á áttunda hundrað skráninga á námskeiðin og góður andi skapaðist meðal þátttakenda.
Tækifæri til að dýpka fagþekkingu og auka starfsgleði
Á námskeiðunum mættust nýliðar í kennslu og þau sem eru reynslumeiri með það að markmiði að tileinka sér helstu stefnur og strauma í menntamálum og dýpka þekkingu sína á sviði menntunar. Á sumarsmiðjum grunnskóla gefst þátttakendum kærkomið tækifæri til að tengjast, efla fagvitund sína og starfsgleði fyrir komandi skólaár.
36 fjölbreytt námskeið í boði
Dagskráin samanstóð af 36 smiðjum sem náðu yfir vítt svið kennslufræða, sköpunar, tækninýjunga og félagslegra málefna. Kennarar gátu meðal annars kynnt sér notkun spila í kennslu, kvikmyndagerð, gervigreind, og aðferðir til að styðja nemendur með ADHD eða fjölbreyttan tungumálabakgrunn. Einnig voru í boði námskeið um öryggismál í sundkennslu, skapandi stærðfræði, geðheilsu barna, viðbrögð við rasisma, hatursorðræðu og margt fleira.
Stefna um að auka fagmennsku og vellíðan
Sumarsmiðjurnar eru hluti af markvissri stefnu Reykjavíkurborgar um að efla fagmennsku og vellíðan starfsfólks í skólastarfi, og skapa tækifæri til nýsköpunar og samvinnu milli skóla.