Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2026 sýnir sterkan og stöðugan rekstur
Rekstur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2025 er í góðu jafnvægi og samkvæmt útkomuspám er öllum fjárhagslegum markmiðum náð. Gert er ráð fyrir jákvæðri afkomu samstæðunnar (A- og B- hluta) upp á 14, 6 milljarða króna. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 er gert ráð fyrir áframhaldandi sterkum rekstri og batnandi afkomu.
Fyrri umræða um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2026 og næstu fimm ára til 2030 fer fram í borgarstjórn í dag.
Veltufé umfram áætlanir endurspeglar sterkan grunnrekstur
Fjárhagsáætlun A-hluta, grunnreksturs borgarinnar sem fjármagnaður er með skatttekjum, gerir ráð fyrir 4,8 milljarða króna afgangi árið 2026. Í fimm ára áætlun er gert ráð fyrir að hagnaður A-hluta fari stigvaxandi og nemi 10,6 milljörðum árið 2030.
Veltufé frá rekstri endurspeglar sterkan grunnrekstur en gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri á móti tekjum nemi 7,7% árið 2026. Í fimm ára áætlun er gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum verði um og við 8%. Í útkomuspá 2025 er gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum verði umfram upphaflega áætlun ársins og nemi 7,9%. Fimm ára áætlun gerir ráð fyrir að öll markmið A-hluta samkvæmt gildandi fjármálastefnu verði uppfyllt á áætlunartímabilinu.
Sterk staða samstæðunnar
Í fjárhagsáætlun ársins 2026 er gert ráð fyrir að stöðugum og sterkum rekstri í A- og B- hluta. Í B-hluta eru fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem eru að hálfu eða öllu leyti i eigu borgarinnar. Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðunnar verði jákvæð um 18,7 milljarða króna.
Veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum er áætlað 15,5% árið 2026 eða 48,4 milljarðar króna.
Heildarfjárfesting er áætluð 74,9 milljarðar árið 2026. Árið 2026 er gert ráð fyrir að lántaka ársins nemi 53 milljörðum króna og að handbært fé í árslok verði 31,3 milljarðar króna.
Gert er ráð fyrir að þriggja ára jafnvægisviðmið sveitarstjórnarlaga verði jákvætt allt áætlunartímabilið og skuldaviðmið vel undir 150% viðmiði sveitarstjórnarlaga.
Eignir borgarinnar að nálgast 1000 milljarða
Reykjavíkurborg og fyrirtæki hennar sinna umfangsmiklum þjónustu- og innviðaverkefnum. Á næsta ári er áætlað að eignir A- og B-hluta borgarinnar samkvæmt efnahagsreikningi verði komnar yfir 1.000 milljarða króna með 470 milljarða króna í eigið fé. Það sýnir sterka stöðu borgarinnar og B-hluta fyrirtækja að áætlað veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum er um og yfir 15% og stendur þannig undir fjárfestingastigi og skuldsetningu fjárfrekra innviðaverkefna.
Gert er ráð fyrir að eignir A-hluta nemi 326,8 milljörðum króna í lok árs 2026 og að eiginfjárhlutfall nemi 30%. Hreinar skuldir sem hlutfall af tekjum eru áætlaðar 82% árið 2026 og fara lækkandi á áætlunartímabilinu. Skuldaviðmið A-hluta er áætlað 77% og er með því lægsta á höfuðborgarsvæðinu.
Uppbygging í þágu barna og barnafjölskyldna í forgangi
„Þegar við í meirihlutanum tókum við stjórn borgarinnar, nokkuð óvænt, í febrúar síðastliðnum vissum við að okkur hafði verið falið mikið ábyrgðarverkefni við fjármálastjórnun Reykjavíkurborgar” segir Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri. „Það hefur skipt okkur miklu máli að setja í forgang uppbyggingu í þágu barna og barnafjölskyldna. Á sama tíma höfum við lagt á það gríðarlegra áherslu að gæta mikils aðhalds við reksturinn. Árangur okkar birtist með skýrum hætti í þessari fyrstu fjárhagsáætlun sem við fylgjum hér úr hlaði. Rekstur borgarinnar er í góðu jafnvægi. Aðhalds er gætt. Ráðdeild er í fyrirrúmi.”
Frekari upplýsingar á vef Reykjavíkurborgar