Færa fólkinu jólastemninguna á opnum aðventustundum
Líkt og undanfarin ár stendur Þjóðleikhúsið fyrir opnum aðventustundum víða um Reykjavík í desember. Leikarar Þjóðleikhússins fara leikandi og syngjandi vítt og breitt um borgina en í heild verða sýningarnar meira en tuttugu talsins.
Sýningarnar fara fram á starfsstöðum Virknimiðstöðvar, í samfélagshúsum, félagsmiðstöðvum, hjúkrunarheimilum og dagdvölum Reykjavíkurborgar. Hver sýning er um hálftíma löng. Sýningarnar eru ekki síst hugsaðar fyrir þau sem eiga ekki heimangengt og fá því jólastemninguna heimsenda frá Þjóðleikhúsinu.
Þjóðleikhúsið hóf að bjóða uppá aðventustundirnar í samstarf við velferðarsvið Reykjavíkurborgar í Covid-faraldrinum, á þeim tíma þegar leita þurfti fjölbreyttra leiða til að njóta og miðla menningu, eins og flestir muna. Þá fóru leikarar á Aðventubílnum um borgina og tróðu upp fyrir hjúkrunarheimili og félagsmiðstöðvar. Aðventustundirnar slógu strax í gegn, þær voru færðar inn fyrir dyr þegar höftum létti og þeim stöðum hefur síðan fjölgað stöðugt sem þiggja með þökkum þessa upplífgandi heimsókn í aðdraganda jólanna.
Sýningarnar verða á eftirfarandi dögum og stöðum og eru öll velkomin á alla staði!
Dagskrá
| Dagur | Klukkan 10:30 | Klukkan 13:00 |
|---|---|---|
| Mánudagur 1. des. | Samfélagshúsið Aflagranda 40 | Dagdvölin Þorrasel, Vesturgötu 7 |
| Þriðjudagur 2. des. | Samfélagshúsið Bólstaðarhlíð 43 | Þjónustuíbúðir í Lönguhlíð 3 |
| Miðvikudagur 3. des. | Íbúðir eldra fólks að Dalbraut 18-20 | Þjóustuíbúðir á Dalbraut 27 |
| Fimmtudagur 4. des. | Félagsmiðstöðin Hvassaleiti 56-58 | Félagsmiðstöð Sléttunni, Sléttuvegi 25 |
| Föstudagur 5. des. | Virknimiðstöðin Skeifunni 8 | |
| Mánudagur 8. des. | Droplaugarstaðir, Snorrabraut 58 | Droplaugarstaðir, Snorrabraut 58 |
| Þriðjudagur 9. des. | Félagsmiðstöðin Hraunbæ 105 | Þjóustuíbúðir á Norðurbrún 1 |
| Miðvikudagur 10. des. | Félagsmiðstöðin Gerðubergi 3-5 | Félagsstarfið í Árskógum 4 |
| Fimmtudagur 11. des. | Iðjuberg (Virknimiðstöð), Gerðubergi 1 | Opus (Virknimiðstöð), Völvufelli 11 |
| Föstudagur 12. des. | Seljahlíð, Hjallaseli | Samfélagshúsið Vitatorgi, Lindargötu 59 |
| Mánudagur 15. des. | Félagsmiðstöðin Hæðargarði 31 | Þjónustuíbúðir í Furugerði 1 (matsalur) |
| Þriðjudagur 16. des. | ||
| Miðvikudagur 17. des. | Félagsmiðstöðin Borgir, Spöngin 43 | Jólamarkaður Virknihúss, Spöngin 41 |