Ein af tíu athugasemdum um hinsegin fólk á netinu inniheldur hatursfull ummæli
Andstaða við hinsegin samfélagið er að aukast á netinu. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknarinnar Öruggari hinsegin borgir sem unnin er af Nordic Safe Cities fyrir Reykjavíkurborg. Ein af hverjum tíu athugasemdum um hinsegin málefni á samfélagsmiðlum inniheldur hatursorðræðu samkvæmt niðurstöðunum og varpa þær ljósi á hvernig umræður á netinu fela í sér meiri átök og skautun en áður.
Öruggari hinsegin borgir
Niðurstöður rannsóknarinnar Öruggari hinsegin borgir (Safer Queer Cities), voru kynntar á málþingi í Safnahúsinu í dag. Rannsóknin er á vegum Nordic Safe Cities í samstarfi við mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar og er hún styrkt af Norrænu ráðherranefndinni í gegnum NIKK – norræna LGBTI sjóðinn.
Rannsóknin felur í sér greiningu á orðræðu á netinu um hinsegin málefni. Þar má sjá birtingarmyndir haturs og áreitni sem geta verið með ýmsum hætti; allt frá niðrandi athugasemdum til hótana og neteineltis sem getur valdið fólki vanlíðan, dregið fram skaðlegar staðalímyndir og alið á rangfærslum um hinsegin fólk. Skýrslan sem nú kom út er hluti af stærra verkefni, sem rannsakar hvernig umræða á netinu hefur áhrif á öryggi í daglegu lífi og vellíðan hinsegin ungmenna í borgum á Norðurlöndunum.
Ingvild Endestad, verkefnastjóri hjá Nordic Safe Cities, kynnti niðurstöður rannsóknarinnar. „Umræðan á netinu er orðin háværari og harkalegri,“ segir hún. „Frásagnir tengdar menningarstríði um réttindi trans fólks, fræðslu og kynvitund berast auðveldlega milli svæða og móta viðhorf fólks. Það sem gerist á netinu er ekki bara á netinu, heldur hefur það áhrif á hversu öruggt ungt hinsegin fólk upplifir sig í daglegu lífi.“
Ingvild Endestad, verkefnastjóri hjá Nordic Safe Cities, kynnti niðurstöður rannsóknarinnar
Það sem gerist á netinu er ekki bara á netinu, heldur hefur það áhrif á hversu öruggt ungt hinsegin fólk upplifir sig í daglegu lífi.
Frá skautun í netheimum til áhrifa í daglegu lífi
Stafræna greiningin nær yfir 35 þúsund athugasemdir á Facebook á árunum 2022-2025 og kemur þar í ljós að ákveðin umræðuefni eru í brennidepli, þar á meðal trans konur í íþróttum, hinsegin fræðsla og réttindi transfólks. Hatursorðræða felur í sér að inngilding hinsegin fólks sé ógn við börn eða konur, en slíka umræðu má einnig sjá á hinum Norðurlöndunum.
Viðtöl við fólk í samtökum hinsegin fólks í Reykjavík staðfesta hvernig hatursfull umræða á netinu færist jafnframt yfir í raunheima. Slíkt leiðir til skemmdarverka, áreitni og vaxandi ótta á meðal hinsegin ungmenna, segir Ingvild. Niðurstöðurnar sýna að sterk lagaumgjörð dugar ekki ein og sér. Að lifa lífinu án áreitis og árása, að hafa frelsi til að vera þú sjálf(ur/t), sem og að upplifa stuðning og virðingu er nauðsynlegt til að hinsegin fólk upplifi sig öruggt í daglegu lífi.
„Þótt Reykjavíkurborg sé þekkt fyrir jafnrétti, þá geta stafræn rými valdið fólki óöryggi,“ segir Sabine Leskopf, formaður mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar og starfshóps um verkefnið Saman gegn ofbeldi. „Þessi rannsókn gefur okkur dýrmæta innsýn og hjálpar okkur sem borg að bregðast við þessu óöryggi og vernda þar með hinsegin fólk. Við viljum að Reykjavíkurborg sé örugg borg fyrir öll.“
Rannsóknin veitir tækifæri til að móta aðgerðir gegn ofbeldi og munu fjölbreyttir hagsmunaaðilar vinna að aðgerðum til þess. Markmiðið til lengri tíma er ekki aðeins að gera Reykjavík öruggari, heldur einnig hvetja aðrar norrænar borgir til að fylgja í kjölfarið.
Punktar um rannsóknina og niðurstöður hennar:
- 435,000 Facebook færslur (árin 2022–2025) greindar.
- 35,672 athugasemdir skoðaðar, 9,4% þeirra innihalda hatursorðræðu.
- Umræður á netinu eru neikvæðari en áður og fela í sér meiri skautun.
- Neikvæðni eykst gagnvart réttindum trans fólks, hinsegin fræðslu og ókyngreindum rýmum.
- Neikvæðni á netinu birtist í raunheimum.
Safer Queer Cities- skýrslan í heild sinni.
Frá málþinginu í Safnahúsinu.