Deiliskipulagsvinna fyrir Borgarlínu í fullum gangi

Horft yfir Suðurlandsbraut og Heimahverfið. Bætt verður við sérrými fyrir almenningssamgöngur, Borgarlínubrautum, milli Skeiðarvogs og Lágmúla, ásamt þremur borgarlínustöðvum, við Glæsibæ, Laugardalshöll og Lágmúla. Mynd/Róbert Reynisson
Loftmynd af snæviþöktum götum í Reykjavík.

Búið er að samþykkja deiliskipulag fyrir um 40% af leið fyrstu lotu Borgarlínu í Reykjavík og styttist í að um helmingur leiðarinnar hafi fullgilt deiliskipulag. Næst til kynningar er deiliskipulag göturýmis Suðurlandsbrautar milli Skeiðarvogs og Lágmúla. 

Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti deiliskipulagstillöguna á fundi sínum í morgun og vísaði henni til borgarráðs. Búast má við því að tillagan komi til kynningar í Skipulagsgáttinni í janúar. Þá gefst almenningi og öllum áhugasömum tækifæri til að koma með athugasemdir og ábendingar eftir að hafa kynnt sér gögnin sem öll verða birt í Skipulagsgáttinni.

Gildar deiliskipulagsáætlanir eru lykilforsenda þess að framkvæmdir geti hafist. Skipulagsáætlanir skilgreina meðal annars hvernig umhverfið mótast, hvar stöðvar verða staðsettar og hvernig vegfarendur munu fara um svæðin. Nú þegar er búið að samþykkja níu deiliskipulagsáætlanir þar sem gert er ráð fyrir Borgarlínu. Þær ná yfir: Fossvogsbrú, Nauthólsvík, HR,  Nauthólsveg, Nýja Landspítalann, Hlemm, efri hluta Laugavegs og tvo hluta Ártúnshöfða. Fyrsta lota Borgarlínu sem liggur á milli Ártúnshöfða og Hamraborgar um Fossvogsbrú nær yfir 12 kílómetra í Reykjavík.

Helstu breytingar á Suðurlandsbraut

Helstu breytingar á Suðurlandsbraut verða þær að:

  • Bætt verður við sérrými fyrir almenningssamgöngur, Borgarlínubrautum, milli Skeiðarvogs og Lágmúla, ásamt þremur borgarlínustöðvum, við Glæsibæ, Laugardalshöll og Lágmúla.
  • Samfelldum hjóla- og göngustígum verður bætt við sunnan Suðurlandsbrautar og núverandi stígar norðan megin haldast óbreyttir. Þannig verður aðgengi virkra ferðamáta við götuna bætt verulega.
  • Akreinar fyrir almenna bílaumferð verða að mestu leyti einbreiðar, nema við stærri gatnamót.
  • Græn ásýnd svæðisins er aukin með skilgreindum svæðum fyrir gróður og regnvatnslausnir ofanjarðar.
  • Aðkomu bíla og útfærslu bílastæða við Suðurlandsbraut 4-32 verður breytt.

Vegna fyrirhugaðra breytinga fækkar bílastæðum fyrir framan byggingar á þessu svæði við Suðurlandsbraut um í kringum 30% (fyrir framan húsin) en stæðin sem fá breytta notkun eru öll í borgarlandi. Til viðbótar eru stæði sem tilheyra lóðunum fyrir aftan hús og einnig eru ónýttar heimildir í deiliskipulagi fyrir bílastæðahús fyrir aftan byggingar á þessu svæði.

Framkvæmdir á Suðurlandsbraut vestan Grensásvegar eru áætlaðar 2027 til 2029 og austan Grensásvegar 2028 til 2030. Markmiðið með Borgarlínunni er að með henni verði til nýr og öflugur burðarás vistvænna samgangna, sem tengir saman hverfi og sveitarfélög á skilvirkan, öruggan og umhverfisvænan hátt.

Deiliskipulagstillagan er hluti af fyrstu lotu Borgarlínu og er í samræmi við markmið og stefnu landsskipulagsstefnu,  svæðisskipulag  höfuðborgarsvæðisins  2040,  Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 og rammahluta Aðalskipulags Reykjavíkur 2040 - Fyrsta lota Borgarlínu:  Ártún  -  Fossvogsbrú.