Dagur íslenskrar náttúru

Dagur íslenskrar náttúru er haldinn 16. september ár hvert.

Dagur íslenskrar náttúru er haldinn þann 16. september ár hvert en dagurinn er tileinkaður íslenskri náttúru til að undirstrika mikilvægi hennar og hvetja til náttúruverndar.

Reykjavík er rík af fjölbreyttri náttúru og grænum svæðum þar sem skógar, hraun, almenningsgarðar og laxveiðiár fléttast saman við fossa, eyjar, fjörur, vötn, fuglasvæði og fjallatoppa og áfram mætti lengi telja.

Þessi svæði eru ekki aðeins mikilvæg fyrir borgarbúa heldur fjölmargar lífverur sem reiða sig á þau. Þess vegna hefur borgin sett sér stefnu um líffræðilega fjölbreytni sem miðar að því að hlúa að þessari fjölbreytni.

Í dag er því kjörinn dagur til þess að njóta náttúru borgarinnar; tína ber á Austurheiðum, njóta haustlitanna í Heiðmörk, skoða urriðann í Elliðaám, fuglana í Grafarvogi, gróðurinn í Hljómskálagarðinum, njóta útsýnisins af Móskarðshnjúkum eða kynnast nýju svæði á vef Reykjavíkur.

Njótum náttúru Reykjavíkur í dag sem alla daga!