Dagdvölin Þorrasel flytur af Vesturgötu
Borgarráð hefur samþykkt að verða við beiðni heilbrigðisráðuneytisins um að dagdvölin Þorrasel flytji úr núverandi húsnæði á Vesturgötu 7, í þeim tilgangi að unnt verði að stækka Heilsugæslustöð miðbæjar sem þar er jafnframt til húsa og er orðin afar aðþrengd.
Lengi hefur verið leitað að nýju húsnæði fyrir heilsugæsluna í miðbænum en árangurslaust. Með breytingunum er lagt upp með stærri heilsugæslu með meiri þjónustumöguleika, meðal annars fyrir aldraða. Að mati Ríkiseigna hefði ekki verið hægt að reka áfram heilsugæslu í miðbænum ef ekki yrði hægt að stækka heilsugæsluna í miðbænum.
Í Þorraseli er boðið upp á tómstundaiðju og virkni fyrir eldra fólk sem býr heima en þarf félagslegan stuðning. Þar er heimild fyrir 50 dagdvalarrýmum en þangað koma reglulega um 80 einstaklingar, víðs vegar af höfuðborgarsvæðinu. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar lagði mikla áherslu á að dagdvalarrýmum í Reykjavík fækkaði ekki við breytingarnar og að ekkert þjónusturof yrði við fyrir þá einstaklinga sem koma reglulega í Þorrasel. Eitt af því sem til skoðunar er er að Grund taki við rekstri dagdvalarrýmanna sem rekin hafa verið í Þorraseli.
Velferðarsvið Reykjavíkurborgar lagði jafnframt áherslu á að heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir fái skilgreinda aukna heilsugæslu, enda sé mikil þörf á að stigið sé fastar inn varðandi læknisþjónustu fyrir hópinn.