Bráðabirgðatenging Borgarlínu yfir Miklubraut

Séð yfir Miklubraut og Hlíðarendasvæði.

Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti í dag að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna tengingar Borgarlínu yfir Miklubraut við Hlíðarenda.

Samkvæmt þeirri tillögu sem samþykkt var að vinna út frá mun Arnarhlíð verða framlengd í endanlegri mynd að rampa frá Hringbraut á Bústaðaveg og sérrými eftir því sem rými leyfir á Bústaðavegi að Burknagötu.

Unnið er að undirbúningi fyrstu lotu Borgarlínu, milli Ártúnshöfða og Hamraborgar, um miðborg Reykjavíkur. Hluti af þeirri leið er framlenging Arnarhlíðar yfir Miklubraut, að gatnamótum Burknagötu og Snorrabrautar. Ekki er unnt að framlengja Arnarhlíð alla leið að Burknagötu, líkt og stefnt er að, fyrr en Miklubrautargöng hafa verið gerð. Þangað til þarf því að vera tímabundin lausn á akstri Borgarlínu milli Landspítala og brúarinnar yfir Fossvog. 

Tillagan sem verður unnin áfram felur meðal annars í sér eftirfarandi:

  • Sérakreinar fyrir almenningssamgöngur, göngu- og hjólaleið um Arnarhlíð (framhald af núverandi Arnarhlíð) að suðvestur rampa Hringbrautar.
  • Undirgöng undir nýjan hluta Arnarhlíðar og öruggar gönguþveranir við báða enda 
  • Ljósastýrð gatnamót og sérakrein fyrir almenningssamgöngur austur yfir Bústaðavegsbrú.
  • Fækkun akreina í norðurátt yfir brúna og breytingar á rampa frá Bústaðavegi austur Miklubraut.

Áætlað er að tengingin um Arnarhlíð verði tilbúin fyrir akstur almenningssamgangna á sama tíma og ný Alda, ný brú yfir Fossvog verður opnuð. Með þessum samhangandi framkvæmdum mun þjónusta almenningssamgangna stórbatna. Heildarkostnaður við framkvæmdina er áætlaður um 1.500 milljónir króna en um tveir þriðju hlutar þess kostnaðar nýtist áfram við endanlega útfærslu. 

Næstu skref í undirbúningi er frekari hönnun og samráð við hagaðila. Áætlað er að framkvæmdir geti hafist seint á árinu 2026 eða byrjun 2027. Framkvæmdin er hluti samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og er unnin með Vegagerðinni og Betri samgöngum.