
„Húsið er að koma ótrúlega vel út, er fallegt með góða hljóðvist“ segir Jónína Einarsdóttir, leikskólastjóri í leikskólanum Stakkaborg sem nýlega fékk nýtt hús á lóðina. Húsið hlaut nafnið Múmíndalur eftir lýðræðislega kosningu meðal leikskólabarnanna.
Með stækkuninni hefur börnum á Stakkaborg fjölgað um 30 og eru nú samtals 100 börn í leikskólanum. „Við erum svo ótrúlega ánægð með að húsið hafi verið byggt á staðnum og þannig náðum við að halda í nánast öll tréin,“ segir Jónína. Vel var vandað til verka og mikið lagt upp úr því að innivist í húsinu sé góð. Loftræsing er tölvustýrð og miðar þörf á loftskiptum við hvað mörg eru í rýminu hverju sinni og magni koldíoxíðs.

Óskað var eftir tilnefningum að nafni frá elstu tveimur árgöngum leikskólans og líka frá foreldrahópnum. „Við fengum margar tilnefningar en kosið var svo milli Hvergilands, Múmíndals og Ævintýralands. Það fór fram leynileg kosning þar sem börnin völdu eitt af þessu þremur nöfnum. Múmíndalur varð fyrir valinu en sú tillaga kom bæði upphaflega fram frá börnum og svo sent inn af foreldrum,“ segir Jónína um nafnavalið.

Hún segir nafnið passa vel, húsið sé langt eins og dalur með mörgum litlum herbergjum sem nýtast vel ásamt göngunum sem eru góð leikrými. „Skrefafjöldi starfsmanna yfir daginn hefur tekið kipp þar sem þetta er svo gott rými og gangar sem nýtast ótrúlega vel í leikinn.“
Umfjöllun um hvernig húsið var byggt í sátt við fugla og samfélag var birt í lok síðasta árs.