Stækkun Stakkaborgar í sátt við fugla og samfélag

Skipulagsmál Skóli og frístund

Stækkun Stakkaborgar

Fuglarnir í trjáþyrpingunni við Stakkaborg í Hlíðunum fengu að njóta vafans þegar farið var af stað við stækkun leikskólans síðasta vor. Stækkuninni hefur verið komið fyrir bæði í sátt við náttúruna og samfélagið í kring og til að svo megi verða fengu öll trén að standa og eitt trjánna utan girðingar. Ástæðan er að tréð er reglulegur viðkomustaður eldri konu sem býr í hverfinu og faðmar það að sér þegar hún á leið hjá.

Hæst ánægð með nýja aðstöðu

Börnum mun fjölga um 30 vegna stækkunarinnar og er Jónína Einarsdóttir leikskólastjóri hæst ánægð með aðstöðuna sem er að taka á sig mynd í nýju húsakynnunum. Aðlögun fyrstu barnanna mun hefjast 1. febrúar ef ekki verður af kennaraverkfalli því tekist hefur að ráða nægt starfsfólk, bæði kennara og uppeldisfræðinga.

Stækkun Stakkaborgar

"Þetta er ótrúlega flott bygging og við erum mjög stolt af því að fá hana.“

Hefði þurft að fella tré til að koma fyrir færanlegum húsum

Upphaflega stóð til að setja færanleg hús í heilu lagi inn á lóðina en fljótlega varð ljóst að það gengi ekki að koma þeim á lóðina án þess að fella nokkur tré. Í trjáþyrpingunni við lóðamörkin er mikið fuglalíf sem leynir sér ekki enda fylla fuglahljóðin nánasta umhverfi þegar þeir taka sig til. „Þetta er heimili fuglanna og við vildum bara alls ekki láta taka trén og því var farið í að skoða aðstæður betur,“ segir Jónína. Hún bætir við að starfsmaður verktakafyrirtækisins sem hafi byrjað að undirbúa bygginguna sé pabbi á leikskólanum en hann er annar af tveimur pöbbum sem vinna við byggingu hússins. 

Fyrst eftir að framkvæmdir hófust með stórum vinnuvélum létu fuglarnir sig hverfa en þegar mestur hávaðinn minnkaði og mestu lætin vegna framkvæmdanna voru yfirstaðin komu fuglarnir aftur, öllum til mikillar ánægju.

Stækkun Stakkaborgar

„Þetta er heimili fuglanna og við vildum bara alls ekki láta taka trén og því var farið í að skoða aðstæður betur.“

Jónína Einarsdóttir

Sérstakir verkefnastjórar fyrir læsi, íþróttir og tónlist

„Nýja húsnæðið mun bæta starfsaðstæður með bæði betri loftræstingu og góðum rýmum fyrir börnin. Við munum einnig hafa fá salinn sem sal og getum nýtt fyrir íþróttir sem mun bæta íþróttakennslu fyrir börnin. Þetta er ótrúlega flott bygging og við erum mjög stolt af því að fá hana.“

Ráðnir hafa verið sérstakir verkefnastjórar í tónlist, íþróttum og læsi. Verkefnastjórarnir munu taka að sér hópa á mismunandi tímum og vinna með þeim sem þurfa sérstaka íhlutun, eins og börn af erlendum uppruna sem þurfa sérstaka þjálfun í íslensku.

Flæði og teymisvinna verður milli deilda í nýja húsinu

Leikskólastarfið í nýja húsinu verður með breyttu sniði og er Jónína spennt fyrir starfinu framundan sem felur í sér mikla samvinnu. „Við höfum verið að vinna mikið með flæði og við viljum fara enn lengra með flæðið. Þetta nýja fyrirkomulag gerir deildarstjórunum kleift að vinna í teymi, sem við teljum að muni bæta starfsaðstæður og auka ánægju bæði barna og starfsfólks.“