Borgarráð afgreiddi í dag tillögur til að auka öryggi og faglegt starf í leikskólum Reykjavíkur
Tillögur um úrbætur sem lúta að auknu innra og ytra eftirliti og aðgerðir til að styrkja starfsemi og starfsumhverfi og auka forvarnir í leikskólum Reykjavíkur voru afgreiddar í borgarráði í dag.
Í lok ágúst á þessu ári var skóla- og frístundasviði falið að vinna tillögur um úrbætur sem miða að því að efla faglegt leikskólastarf í Reykjavíkurborg og auka öryggi, gæði og stöðugleika í þjónustu við börn og fjölskyldur.
Aukin gæði, betra starfsumhverfi og skilvirkari ferlar
Tillögur sviðsins sem voru afgreiddar í borgarráði í dag byggja á faglegum viðmiðum og lögbundnum skyldum sveitarfélagsins. Í greinargerð kemur fram að árangur af innleiðingu tillagnanna muni skila sér í auknum gæðum, betra starfsumhverfi og skilvirkari ferlum sem styðja við faglega forystu, aukinn stuðning og öryggi innan leikskólasamfélagsins.
Tillögur skýrslunnar skiptast í eftirfarandi flokka:
- Viðbrögð við máli í leikskólanum Múlaborg
- Innra mat og umbótaáætlanir leikskóla
- Aukinn stuðningur og eftirlit
- Ytra mat leikskóla
- Starfsumhverfi
- Forvarnir
Hluti tillagnanna rúmast innan fjárhagsramma skóla- og frístundasviðs en aðrar þarfnast viðbótar fjármagns sem fer nú til greiningar hjá fjármála- og áhættusviði. Tillögurnar hafa verið sendar til skóla- og frístundaráðs sem tekur þær fyrir á næsta fundi ráðsins.