Bílastæðasjóður hlýtur nýsköpunarviðurkenningu

Bílastæðasjóður hlaut viðurkenningu á nýsköpunarverðlaunum hins opinbera 2025 sem fóru fram í dag. Viðurkenningin var veitt „fyrir framúrskarandi árangur í opinberri nýsköpun með umbreytingu á framkvæmd eftirlits með stöðvunarbrotum“. Alls voru 36 aðilar tilnefndir og fimm fengu viðurkenningu, tveir í flokki sveitarfélaga, tveir í flokki ríkisaðila og einn einstaklingur.
Til opinberrar nýsköpunar telst umbótastarf, innleiðing nýjunga eða breyttar aðferðir í opinberum rekstri sem skapar eða eykur virði í starfsemi hins opinbera. Markmiðið með verðlaununum er að veita viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í opinberri nýsköpun síðastliðna 12 mánuði.
Gróska í nýsköpunarmálum hins opinbera
Ingþór Karl Eiríksson, forstjóri Fjársýslunnar, veitti verðlaunin en hann var jafnframt formaður dómnefndar. Hann sagði við verðlaunaafhendinguna mikilvægt að lyfta þeim sem hafa gert vel til hvatningar fyrir öll hin. Hann lagði einnig áherslu á að frábært væri að fá svona margar tilnefningar og það sýndi vel þá grósku sem sé til staðar í nýsköpunarmálum hins opinbera.
Reykjavíkurborg þakkar viðurkenninguna sem staðfestir það sem starfsfólk og gestir borgarinnar hafa orðið varir við, að með tilkomu nýs rafræns eftirlits hjá Bílastæðasjóði hefur þjónustan orðið skilvirkari og starfsaðstæður stöðuverða verið bættar.