Auglýsing starfsleyfa á sviði hollustuhátta
Þann 27. júlí 2024 tók gildi reglugerð nr. 903/2024 um hollustuhætti. Ýmis nýmæli eru í reglugerðinni og ástæða er til að vekja sérstaklega athygli á auglýsingaskyldu starfsleyfa og nýju verklagi vegna samskipta við embætti byggingarfulltrúa.
Áður en umsókn um starfsleyfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á sviði hollustuhátta er tekin til afgreiðslu skal auglýsa tillögu að starfsleyfi á vef heilbrigðiseftirlitsins í fjórar vikur. Á auglýsingatíma má hver sem vill gera skriflegar athugasemdir við tillöguna.
Augljóst er að leyfisveitingar munu tefjast sem þessu nemur og er þeim sem hyggjast hefja leyfisskyldan rekstur bent á að hafa þetta í huga og leggja inn umsóknir tímanlega.
Þessi auglýsingaskylda á við um rekstur sem fellur undir viðauka í hollustuháttareglugerðinni um leyfisskylda starfsemi, svo sem veitingastaði, gististaði, skóla, íþróttahús, snyrtistofur og fleira.
Staðfesting byggingarfulltrúa
Nýtt verklag hefur einnig tekið gildi vegna umsagna byggingarfulltrúa sem nauðsynleg er áður en vinnsla við umsóknir um leyfi heilbrigðiseftirlits getur hafist.
Áður en sótt er um leyfi til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur skal umsækjandi sjálfur fá staðfestingu byggingarfulltrúa á að húsnæði og starfsemi sé í samræmi við skipulag og ákvæði byggingarreglugerðar og senda staðfestingu byggingarfulltrúa með umsókn sinni til heilbrigðiseftirlitsins. Umsækjandi skal jafnframt hafa gengið úr skugga um að húsnæðið og starfsemin sem ætlunin er að starfrækja starfsemi í, sé í samræmi við síðustu samþykktu teikningar af húsnæðinu.
Athugið að umsókn telst ekki móttekin fyrr en öll gögn hafa borist Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og hefst vinnsla umsóknar fyrst þá. Umsækjendur eru hvattir til að hafa þetta í huga þegar sótt er um starfsleyfi og skráningu til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.